15.02.1941
Sameinað þing: 1. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látins þingmanns

Aldursforseti (IngP) :

Frá því er síðasta þingi sleit hefur fallið frá úr þingmannahópnum merkur maður á bezta aldri, Pétur Halldórsson, borgarstjóri í Reykjavík. Hann andaðist 26. nóvember f. á. eftir þunga og langa legu. Vil ég, áður en Alþingi tekur til starfa að þessu sinni, minnast þessa þingbróður vors nokkrum orðum.

Pétur Halldórsson fæddist í Reykjavík 26. apríl 1887, sonur Halldórs bankaféhirðis Jónssonar og konu hans, Kristjönu Pétursdóttur, organleikara Guðjohnsens. Hann lauk stúdentsprófi í lærða skólanum í Reykjavík 1907 og ári síðar heimspekiprófi við Kaupmannahafnarháskóla, en hvarf síðan frá frekara námi og fluttist heim, keypti 1. janúar 1909 Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar og rak þá verzlun til dauðadags, þótt sonur hans stjórnaði henni hin síðustu árin.

Þótt Pétur Halldórsson muni verið hafa að eðlisfari maður óframgjarn, hóglátur og friðsamur, kom snemma í ljós áhugi hans á almennum málum, skoðanafesta og einbeitni, samfara ljúflyndi og lipurð í framkomu, og hlóðust því brátt á hann ýmis vandasöm störf og ábyrgðarmikil. Ekki mun hann þó sjálfur hafa leitað á um þá hluti, heldur einatt látið undan fortölum og áeggjan samverkamanna, sem til hans báru jafnan mikið traust. Í góðtemplararegluna gekk hann þegar á barnsaldri, var félagi hennar upp frá því og einn hinna helztu forvígismanna í bindindismálunum. Hann var æðsti maður reglunnar hér á landi (stórtemplar) í 5 ár samfleytt, 1917–1922. Í bæjarstjórn Reykjavíkur var hann kosinn 1920 og átti þar sæti æ síðan, var forseti bæjarstjórnar í mörg ár, bæjarráðsmaður frá 1932, en borgarstjóri frá 1935, eftir fráfall Jóns Þorlákssonar. Þingmaður Reykvíkinga var hann frá 1933, kosinn fyrst aukakosningu 22. október 1932. Auk þeirra starfa, sem hér hafa verið talin, má nefna það, að Pétur Halldórsson átti um langt skeið sæti í skólanefnd og sóknarnefnd í Reykjavík. Hann var og einn forgöngumanna að stofnun gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928 og formaður skólanefndar hans alla tíð. Í mörg ár hafði hann og verið formaður íslenzka bóksalafélagsins. — Bækling ritaði hann og gaf út árið 1925: „Góðæri og gengismál. Hugleiðingar stýfingarmanns“. — Af málum þeim, sem hann beittist fyrir í bæjarstjórn og á Alþingi, má einkum nefna hitaveitumálið. Á því máli hafði hann einlæga trú og lagði fram mikið starf því til framgangs, þótt óvænt örlög hafi svo til hagað, að honum auðnaðist ekki að sjá því að fullu borgið.

Pétur Halldórsson átti mikinn þátt í að glæða tónlistarlíf bæjarins. Sjálfur var hann afburðagóður söngmaður og smekkvís að sama skapi.

Þótt sumir telji Pétur Halldórsson hafa verið um of íhaldssaman og fastheldinn við forna háttu, einkum á sviði fjármála og félagsmála, leikur það ekki á tveim tungum, að hann hafi verið maður stefnufastur, heill og hreinskiptinn, og ekki hvikað frá því, er hann taldi rétt vera í hverju máli. Og um hitt eru allir sammála, þeir er af honum höfðu kynni, að hann hafi verið mannkostamaður, hjálpfús og greiðvikinn, prúðmenni í allri framgöngu, ljúfur og mannþýður, enda átti hann óvenjulegum vinsældum að fagna, einnig meðal andstæðinga.

Ég vil biðja háttv. þingmenn að votta minningu þessa látna alþingismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Þingmenn risu úr sætum.]