20.05.1941
Efri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta frv. um breyting á 1. um fiskveiðasjóð Íslands var flutt í hv. Nd. og er hingað komið með litlum breytingum frá því, sem það var lagt fyrir þingið. Breytingar þær, er hér hefur verið lagt til, að gerðar yrðu á 1. þessum, stefna í fyrsta lagi í þá átt að auka allmjög stofnfé sjóðsins og í öðru lagi að auka lán þau, er sjóðurinn veitir til smíða og kaupa á fiskiskipum og til fyrirtækja, er reka iðnað með sjávarafurðir. Eins og nál, ber með sér, eru allir nm. á einu máli um, að efla beri sjóðinn, svo að hann geti brátt orðið þess megnugur að fullnægja stofnlánaþörf sjávarútvegsins. Á það nokkuð langt í land, að þetta náist, því að sjóðurinn hefur allt frá upphafi átt litla tekjumöguleika. Allt fram til 1930 hafði hann ekki aðrar tekjur en framlag það, sem veitt var á fjárl. á ári hverju, og var það flest árin ekki meira en 20 þús. kr. í Með 1. frá 1930 var stigið fyrsta sporið til þess að efla fiskveiðasjóð allverulega, með því að stofnfé sjóðsins skyldi aukið um eina millj. kr., er ríkið skyldi leggja fram og greiða á 10 árum. Varð lítið úr greiðslu þessari, svo að sjóðurinn varð að taka 1 millj. kr. lán í Danmörku, og hefur hann orðið að standa sjálfur undir greiðslum á vöxtum og afborgunum. En nú hefur, að ég hygg, tekizt samningur milli sjóðsins og ríkisstj. um það, að ríkissjóður taki að sér að greiða það, sem eftir er af danska láninu og greiði síðan sjóðinum muninn, að frádregnu því tillagi, sem ríkissjóður hefur þegar greitt fiskveiðasjóði. Hefur þá nokkuð úr rætzt, og er ekki um að sakast, þó að sjóðurinn hafi átt við allmiklu lakari skilyrði að búa en ráð var fyrir gert undanfarin 10 ár og orðið að taka starfsfé sitt að láni með skilyrðum, sem ekki voru hagstæð að öllu leyti. Þetta heyrir sögunni til, og er ekki ástæða til að fjölyrða um það, en þrátt fyrir þetta hefur sjóðurinn eflzt mjög á þessum 10 árum, svo að í stað þess, að allar eignir sjóðsins voru árið 1930 aðeins rúmlega 697 þús. kr., verða þær nú orðnar röskar 3 millj. kr., þegar hann hefur fengið greidda þá einu milljón, sem hinn átti að fá 1930–41. Afkoma sjóðsins hefur því orðið sæmileg á þessu árabili, og er sjálfsagt að viðurkenna, að sjóðinum hefur verið stjórnað prýðilega þessi ár. Töp hafa engin orðið, og hagsmuna hans hefur verið vel gætt í hvívetna.

Þess ber að geta, að nokkur tekjuauki hefur orðið af innheimtu lána skuldaskilasjóðs. Fiskveiðasjóðsgjald það, sem ákveðið var með l. 1930, hefur reynzt sjóðinum drýgstur tekjuliður . Hefur hann reynzt svo drjúgur, að á 10 árum hefur hann skilað rúmlega hálfri millj. kr. í sjóðinn.

Er ég hef nú lýst þessum aðdraganda, vil ég geta leiða þeirra til að afla sjóðinum tekna, sem stungið er upp á í frv. Er þá fyrst að telja fiskveiðasjóðsgjaldið samkvæmt l. frá. 1930. Má gera ráð fyrir, að af því fáist 40 þús. kr. á ári eða rúmlega það, svo sem verið hefur. Þá er helmingur þess útflutningsgjalds, sem ríkissjóður tekur árlega af hvers konar sjávarafurðum, sem renna á í fiskveiðasjóð og er nýr tekjustofn. Hafa orðið skiptar skoðanir um þetta atriði í báðum hv. d. Ég tel þetta nokkuð varhugavert, í fyrsta lagi vegna þess, að ég er ekki bjartsýnni en það, að ég tel, að svo geti farið, að ríkissjóði veiti ekki af sínum uggum og roðum, að því er tekjur snertir. Í öðru lagi er það, að ég tel rétt að fara varlega í að byggja á þessu ákvæði, vegna þess að svo gæti farið, þegar í harðbakka slægi fyrir ríkissjóði, að frestað yrði að láta þetta gjald renna til fiskveiðasjóðs, svo að sjóðinum yrði sýnd veiði, en ekki gefin. Hins vegar teldi ég ekki óeðlilegt, að hækkað yrði nokkuð það hundraðsgjald, sem sjóðinum er ætlað samkvæmt l. frá 1930, en það er nú ekki nema 1/8% og hefur numið 40 þús. til 50 þús. kr. árlega. Ef þetta gjald væri hækkað t. d. upp í ½%, ætti það að geta numið 170 þús. til 180 þús. kr. árlega, og hygg ég, að sú aðferð yrði ekki eins óvinsæl og hin, auk þess, að hún er bæði sanngjörn og eðlileg. Ég held, að allir, sem fiskveiðar stunda, hefðu tekið þessari aðferð betur en hinni. Nú hefur hv. Nd. lagt svo mjög á móti þessari stefnu, að hún hefur fellt niður þessa leið til tekjuöflunar. Hins vegar er orðið svo áliðið þings, að ósennilegt er, þar sem um er að ræða megna mótspyrnu í Nd., að hægt verði að koma fram breytingu á l. frá 1930. Var því úr vöndu að ráða fyrir mig, og játa ég, að það væri nokkuð hart aðgöngu að krefjast svo mikillar hækkunar nú þegar. Ég finn glöggt, að í þessu frv. felast allmiklar bætur fyrir sjóðinn, þó að ekki séu fullnægjandi. Þess vegna hef ég ákveðið að taka þá afstöðu að gera tilraun til að koma málinu fram með því að leggja til, að í fiskveiðasjóð renni ekki helmingur útflutningsgjaldsins, eins og lagt er til í frv., heldur fjórði hluti þess. Ég ber fram þessa brtt. af tveim ástæðum, fyrst og fremst af því, að ég tel, að það sé þó minna tjón fyrir ríkissjóð að missa ¼ af þessu útflutningsgjaldi en að missa helming, og hitt er mér ekki minni ástæða, að ég tel, að því lægri hundraðshluti, sem tekinn er af þessu gjaldi frá ríkissjóði, því meiri líkur séu til, að fiskveiðasjóður verði ekki sviptur þeirri tekjugrein. Ég geri það því af miðlunarástæðum að fallast á þessa leið, og um þetta er öll nefndin sammála.

Mér er það alveg ljóst, að þótt rýmkuð sé í frv. allverulega heimild sjóðsins til að taka lán til starfrækslunnar, er sú leið ákaflega torveld. Lán kunna að vísu að fást nú og með bærilegri kjörum en vant er, en til frambúðar hentar það ekki útgerðinni vel. Ef mjög mikill hluti rekstrarfjár sjóðsins er fenginn að láni, er aldrei hægt að búast við, að hann geti veitt lán með verulega hagstæðum kjörum. Hann þyrfti að geta fullnægt að miklu leyti stofnlánaþörf útvegsins af eigin fé. Undanfarinn áratugur hefur verið sjávarútveginum örðugur, og stafar það ekki minnst af háum vöxtum. Oft hafa stofnlánin verið 80–90% af stofnkostnaði, og þar ofan á hafa útgerðarmenn orðið að taka lán til rekstrarins og greiða af þeim mjög háa vexti. Afkoman hlýtur því að verða ákaflega slæm nema í sérstökum góðærum. Það þarf að koma svo fótum fyrir fiskveiðasjóð, að hann geti veitt lán með virkilega hagstæðum kjörum.

Þá er 2. brtt. n. um að hækka úr 35 þús. kr. í 75 þús. kr. heimildina til að veita þeim iðjufyrirtækjum lán, sem vinna að hagnýting sjávarafurða. Í frv. er upphæðin höfð hin sama og verið hefur undanfarið, þótt gildi peninga sé breytt. Allir sjá, að hún nær ákaflega skammt til að fullnægja stofnlánaþörf slíkra fyrirtækja. Ég álít, að réttara sé að veita fáum fyrirtækjum allrífleg lán, svo að fullum notum komi, heldur en veita fjölda fyrirtækja lán rétt til málamynda. Fleiri brtt. höfum við ekki gert. Ég vænti þess, að hv. Ed. fallist á samkomulagstillögur nefndarinnar og málið fái hér afgreiðslu. Ég vænti þess einnig, að hv. Nd. sýni ekki þann þverskallahátt að halda sér rígfast við helming útflutningsgjaldsins, eins og stendur í frv. Ég vona, að til þess geti ekki komið, að hv. Nd. láti málið stranda, þótt þarna sé vikið nokkuð frá því, sem hún hélt mjög fast fram í meðferð málsins.