23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Mál þetta fór héðan til hv. Ed., og er það komið þaðan aftur nokkuð breytt. Mér þykir ekki rétt að láta það fara undir atkv. án þess að minnast örlítið á þá þýðingarmiklu breyt., sem hv. Ed. hefur gert á því.

Hv. þdm. mun sjálfsagt vera í minni frá umr., sem hér fóru fram í þessari deild, að málið var nokkurt ágreiningsmál. Uppruni málsins var sá, að ég hafði beðið hv. sjútvn. að flytja málið, og hafði ég samið frv. og haft stuðning atvmrh. til þess að fara þess á leit við sjútvn., að hún tæki frv. til flutnings. Í meðferð málsis í n. varð ég nú til samkomulags að slá allverulega af ýmsu því, sem upphaflega var í frv. Það var t. d. upphaflega í því, að vextir af útlánum skyldu vera aðeins 3%, og ýmislegt annað var það, sem ég hafði lagt til í frv., sem nefndin gat ekki fallizt á að öllu leyti.

Samkomulag varð ekki um vextina. Meiri hl. n. vildi færa þá upp í 4%, og það féllst ég á, en þegar inn í deildina kom, þá var samþykkt till. minnihl. sjútvn. að færa vextina enn upp í 4½% .

Þá var ágreiningur um tekjuöflun til sjóðsins. Upphaflega var með frv. mínu ætlazt til þess, að sjóðurinn yrði efldur, svo að hann gæti tekið að sér mjög bráðlega að sjá sjávarútveginum fyrir öllum stofnlánum. Sjútvn. féllst á, að þetta væri að sjálfsögðu framtíðarmarkmið, því að engin stofnun er hér á landi, sem hefur þetta með höndum, og útgerðin hefur, eins og kunnugt er, orðið að hafa erlend lán að langmestu leyti fyrir stofnlán.

En vegna ýmissa örðugleika, þá var gerð nokkur miðlun á þessu í n., og var þó nefndin ekki sammála, því að meiri hl. n. vildi láta sjóðinn njóta ½ útflutningsgjaldsins af sjávarafurðum, en minni hl. vildi leggja á nýtt gjald, sem mundi svara ¼ af því, sem ríkissjóður innheimtir, en láta ríkissjóð halda sínu. En þetta þótti okkur meirihl.-mönnum of lítil efling fyrir sjóðinn, og d. samþ. skoðanir meiri hl.

Nú hefur Ed. gert þá stórfelldu breyt. á frv., að hún hefur höggvið þennan tekjulið í sundur, alveg í miðju, þannig að í staðinn fyrir, að í frv. var ákveðið, þegar það fór héðan, að sjóðurinn skyldi hafa helming þess útflutningsgjalds, sem ríkið innheimtir, hvort sem það lækkar hann eða hækkar, þá hefur Ed. breytt þessu og fellt niður í ¼. Ég er náttúrlega ekki óvanur því að reka mig á þennan kulda til sjávarútvegsmála, og af því að mér var kunnugt um, að þetta var samkomulagsmál í Ed., og þó að einhverjir hefðu verið, sem hefðu viljað efla sjóðinn meira, þá varð það til þess, að þetta var fellt. Af þeirri ástæðu sé ég ekki annað fært en að leggja til, að þessi hv. d. samþykki frv. eins og það er nú orðið. En ég vildi jafnframt lýsa yfir því, að mér þykir mjög miður, að enn skuli vera svona mikil tregða fyrir sjávarútvegsmálum hér á þessari hv. samkomu og enn skuli skorta eins mikið og raun ber vitni um á skilning hv. þm. á nauðsyn fyrir því, að sjávarútvegurinn, sem er undirstaðan undir allri okkar getu, að hann sé tryggður með öflugri stofnun til eflingar þessa atvinnuvegar. En menn verða að venja sig við. það að vera þolinmóðir og taka leiðina í áföngum. Og í trausti þess, að skilningur aukist smám saman á þessu máli, og að því verði lengra þokað á næsta þingi að efla þessa mikilsverðu stofnun, mun ég leggja til, að frv. verði samþ. eins og það nú er komið frá hv. Ed.