07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

131. mál, þegnskylduvinna

Jóhannes Jónasson:

Hugmyndin um þegnskylduvinnu hér á landi er engan veginn ný bóla. Fyrir því nær fjórum áratugum var hér á Alþingi borin fram tillaga í málinu, sem að vísu náði aldrei fram að ganga. Frá þeim tímum mun vera hin alkunna staka, sem sumir telja, að hafi átt hvað mestan þáttinn í að hindra framgang málsins:

Ó, hve margur yrði sæll

og elska mundi landið heitt, mætti hann vera í mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt.

En hugmyndin hefur þó aldrei horfið með öllu úr hugum sumra mann, enda þótt mjög virðist nú af henni dregið, Þar sem er frv. það til heimildarl. frá hv. landbn., sem hér liggur fyrir til umræðu.

Áður en ég vík að sjálfu þessu frv., vildi ég leyfa mér að greina nokkuð frá afstöðu minni

til þegnskylduvinnu almennt sem samfélagslegrar hugsjónar. Tvö eru þau höfuðatriði, sem formælendur hennar hafa fært henni til ágætis.

Í fyrsta lagi, að á hana beri að líta sem eins konar vinnuskóla, þar sem æskumenn ættu þess kost að kynnast sómasamlegum vinnubrögðum og venjast nauðsynlegum starfsaga.

Í öðru lagi, að hún yrði Þjóðfélaginu fjárhagslegur ávinningur og mundi stuðla að auknum framkvæmdum í landinu um leið og hún beindi hugum æskumanna að óeigingjörnu fórnarstarti í þágu lands og þjóðar.

Hvor tveggja þessi rök áttu máske við nokkuð að styðjast fyrir fjörutíu árum á blómaskeiði hraðrar þjóðfélagsþróunar, þar sem atvinnuleysi var óþekkt fyrirbrigði. En nú er orðið nokkuð öðru máli að gegna. Nú er það atvinnuskipulag, sem þá gott blessazt, orðið úrelt í flestum greinum og samsvarar ekki lengur þörfum þegnanna, hvorki á friðartímum né stríðstímum. Þannig fer ætíð að lokum í hverju því þjóðfélagi, þar sem örfáir einstaklingar ráða yfir flestum tegundum framleiðslutækjanna og þar með meginhluta atvinnunnar. Það ber loks að þeim brunni, að á friðartímum býr mikill hluti þegnanna ýmist við algert atvinnuleysi eða þá svo lítilfjörlega atvinnu, að hún fullnægir ekki framfærsluþörfum þeirra, en á stríðstímum skortir aftur á móti sjaldnast atvinnu, eins og dæmin nú bezt sýna, þótt hún á hinn bóginn sé þá í raun og veru verri en engin, þar sem hún miðast ekki við verðmætasköpun til handa þjóðfélaginu, heldur þvert á móti við sóun og tortímingu allra verðmæta. — Oss Íslendingum hefur nú í fyrsta sinni verið svipt yfir í þetta stig atvinnuháttanna til fullnustu, með því að meginhluti vinnuafls vors er nú kominn í þjónustu framandi herveldis, án þess að hin minnstu líkindi séu til þess, að nokkur varanleg framtíðarverðmæti komi þar á móti. Getur nú það þjóðfélag, sem þannig býr að þegnum sínum um atvinnuskilyrði, með nokkru móti leyft sér að ráðstafa vinnuafli æskulýðs síns til þegnskyldu, án þess að spyrja hann ráða? Er það ekki hálfgerð kaldhæðni á tímum friðarins að kveðja atvinnulausan ungling til eins konar vinnunáms í hálfan mánuð eða heilan árlega og varpa honum síðan frá sér út í sama atvinnuleysið aftur? — Og er það ekki ærin harðneskja á tímum styrjaldar og nægrar atvinnu að kveðja hann frá skammgóðu tækifæri til fjáröflunar og skipa hönum að „moka skít fyrir ekki neitt“? Enda þótt miðað sé við núverandi ástand atvinnuháttanna, get ég ekki séð, að þegnskylduvinna bæti á nokkurn hátt úr því ástandi, allra sízt í því formi, sem hér er lagt til.

Enginn getur með sanni sagt, að nú sé skortur á fjármagni til opinberra framkvæmda. — Sé hins vegar lögð áherzla á hina uppeldislegu hlið málsins, má benda á það, að vafalaust mundi betri árangur nást með frjálsu vinnunámi, — sjálfboð mundi í því efni vera affarasælla en skyldukvöð. Auk þess sýnist mér, að frv. það, er hér liggur fyrir, sé eiginlega hvorki fugl né fiskur. — Í gamla daga var þó gert ráð fyrir, að hin sama kvöð skyldi ná til allra æskumanna landsins, samtímis og undantekningarlaust. — Hér er hins vegar um heimild fyrir kaupstaði og hreppsfélög að ræða, þannig að samkvæmt henni gæti svo að borið einn góðan veðurdag, að unglingarnir í Hrunamannahreppi í Árnessýslu eða Árneshreppi á Ströndum eða á Seyðisfirði austur væru allt í einu orðnir þegnskyldir einir manna, en allur annar æskulýður landsins jafnfrjáls og áður. — Ég er ekki í neinum vafa um, að slík tilhögun mundi, á tímum slíkum sem þessum, verða til þess eins að skapa glundroða og óánægju á viðkomandi stöðum, og mér er sem ég heyri, þegar ungi maðurinn úr hinum skyldubundna Hrunamannahreppi og ungi maðurinn úr hinum kvaðalausu Biskupstungum færu að bera saman bækurnar um þessa vísdómslegu ráðstöfun. — Ég hygg, að þeim mundi koma saman um, að harla fálmandi í bjargráðunum hefði sá löggjafi verið, sem lagði grundvöllinn að þessu undarlega misræmi á þjóðfélagslegri aðstöðu þeirra, og að þeir mundu bera litla virðingu fyrir slíkum „haltu-mér slepptu-mér“ leik á þessum alvarlegu tímum.

Samkvæmt fylgiskjali frv. þessa, err það er stjórnarfrv., sem samið var vegna ályktunar síðasta Alþingis, virðist helzt mega ráða, að hinn eiginlegi tilgangur þess sé sá að veita kaupstöðum landsins heimild til að fela að einhverju leyti atvinnuleysi æskulýðs síns undir þessari nýju grímu, enda er þessi tilgangur enn augljóslegar staðfestur með tillögu jarðræktarnefndar búnaðarþings um að kvöð þessi verði kölluð skylduvinna, en ekki þegnskylduvinna. — Mér virðist því um neyðarúrræði eitt að ræða, sem ekki getur svarað tilgangi sínum, hvort heldur sem litið er á málið frá uppeldislegu eða fjárhagslegu sjónarmiði. Sannleikurinn er líka sá, að þegnskylduvinna er orðin úrelt hugsjón, þegar miðað er við það þróunarstig, sem atvinnumál þjóðar vorrar nú standa á.

Mín skoðun er sú, að það þjóðfélag eitt, sem tryggt hefur öllum þegnum sínum örugg atvinnuskilyrði, geti gert kröfu á hendur þeim um ólaunaða skylduvinnu. — En jafnframt er hitt sannfæring mín, að ef atvinnuskilyrðin væru örugg, mundi einnig hagur þjóðfélagsins vera slíkur, að það væri þess umkomið að greiða full laun fyrir hvert handtak í þágu þess. — Væri þá um leið horfin þörfin fyrir slíkt form á hagnýtingu vinnuaflsins, sem hér er um að ræða. Hver dagurinn, sem líður, sannar oss æ átakanlegar, að þessi jörð og þá einnig þetta land, sem vér lifum á, býr yfir slíkum allsnægtum auðlinda og um leið starfsskilyrða, að allur sparnaður á fullum launum fyrir friðsöm störf er í senn grátlegur og hlægilegur. Hugsum oss, að öllum þeim óhemjuauði, sem nú er daglega sóað mannkyninu til óendanlegrar bölvunar, væri varið til uppbyggingar á efnislegri og andlegri framleiðslu þjóðanna. — Hverjum mundi þá í alvöru detta í hug að nefna ólaunaða skylduvinnu á nafn?

Frv. þetta er aðeins ein sönnunin af mörgum fyrir því öngþveiti, sem vort úrelta þjóðskipulag er komið í gagnvart æsku sinni og framtíð. — Undir yfirskini uppeldisáhuga og þjóðhollustu er ungu fólki boðið að „moka skít fyrir ekki neitt“, í stað þess að fá því í hendur framleiðslutæki sín, — en þá fyrst er tímabært að kenna æskulýðnum vinnubrögð fyrir alvöru, þegar hann hefur í höndum sér til ævarandi umráða þau tæki, sem hægt er að beita kunnáttunni við með fullum og réttum árangri.