07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

131. mál, þegnskylduvinna

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Ég vil óska hv. þm. til hamingju með jómfrúræðu sína. — Eins og oft vill verða við þau tækifæri, þá er oft fullhátt galað, og ég hygg, að þetta frv. sé í rauninni svo meinlaust, að óþarft sé að ráðast á það eins og það væri óargadýr. Hér er alls ekki um neina þvingun að ræða, heldur aðeins, að ef hrepps- eða bæjarfélög vildu, þá fengju þau heimild til þessara ráðstafana.

Jafnvel þó það þurfi að moka skít, þá vil ég segja það, að ég þekki sveitir, þar sem unglingar mundu ekki telja þetta neitt „öngþveiti úrelts skipulags“, þó að þeir tækju höndum saman um að byggja leikfimishús eða leikvöll fyrir æskuna. Þegnskylduvinnan er alls ekki úrelt hugsjón. — Hún á sér stað enn og hefur í raun og veru alltaf átt sér stað síðan ungmennafélögin voru stofnuð. — Ungir menn hafa tekið sig saman um ýmsar framkvæmdir, t. d. byggt samkomuhús, hlaðið girðingar o. fl.

Hv. þm. þarf varla að óttast, að þetta verði gert hér í Reykjavík í náinni framtíð, og við flm. frumvarpsins gerum okkur heldur ekki von um slíkt.

Og þótt kaupstaðir kynnu að taka slíkt upp síðar, þá mun tilgangurinn ekki vera að „fela atvinnuleysi æskulýðsins undir þessari nýju grímu“, eins og hv. þm. komst að orði. — Unglingar, sem eru atvinnulausir á annað borð, hafa ekki illt af að verja 1–2 vikum af tíma sínum í þarfir þjóðfélagsins. Ef til vill finnst hv. þm. þegnskylduvinnan úrelt, en mér skilst, að herskylda í Rússlandi sé ekki talin óþörf, og því má ekki skipuleggja vinnu unglinga hér og kenna þeim að vinna verk, sem eru til almenningsheilla eða beinlínis gerð fyrir æskuna sjálfa?

Við flm. þessa frv. gerum okkur engar himinháar vonir um árangur, en við viljum þó ganga til móts við þá, sem slíkrar heimildar óska, og mér er kunnugt um einn eða tvo hreppa, sem fara fram á slíka heimild í lögum.