12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

131. mál, þegnskylduvinna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Mér finnst ekki rétt, að þetta mál fari umræðulaust til 2. umr, án þess að sögð séu um það nokkur orð, enda þótt það sé nú svo um flest þau mál, sem hæstv. ríkisstj. stendur að og búin eru að

fara gegnum aðra hv. þd., að það þýðir yfirleitt lítið að tala um þau í hinni d., heldur séu þegar ákveðin þeirra örlög. Það er samt svo, að mér virtist, að í hv. Nd. væri allmikil andstaða á móti þessu frv. og að það hafi yfirleitt farið gegnum þá hv. d. þannig, að það hafi verið afgr. með hangandi hendi, þó að atkvæðamunur hafi verið nógur.

Ég tók eftir, að í umr. þar var bent á, að ekki kæmi skýrt fram í þessu frv., hver tilgangurinn væri með því, hvort hér væri um að ræða, að þetta ætti að vera uppeldisráðstöfun, eða hvort þetta ætti að vera almennur vinnuskattur, sem lagður væri á landsmenn í þeim tilgangi að afla ríkissjóði tekna á þann hátt, að hann fengi ókeypis vinnuafl í svo stórum stíl sem yrði, ef þessi 1. væru framkvæmd almennt á landinu. Þessu var ekki svarað í þeirri hv. d., og það kemur ekki fram í frv. Samt finnst mér ekki, að það muni vera tilgangurinn, að þetta eigi að vera uppeldisráðstöfun, heldur sé hitt aðaltilgangurinn með frv. að leggja þarna skyldukvöð á þessa menn, sem þessi l. mundu koma til með að ná yfir. Þetta á ekki að verða sem almenn skólaskylda, því að það á að vera hægt að kaupa sig undan þegnskylduvinnunni, samkvæmt ákvæðum þessa frv., og það væri skrýtið ákvæði, ef þetta væri hugsað sem skólaskylda, ef menn þá gætu keypt sig undan skólaskyldu, sem peningaráð hafa til þess.

Það er gert ráð fyrir, að tíminn í þessari vinnu sé hálfur mánuður á ári. Miðað við núverandi kaupgjald er þetta ekki lítill skattur, og mun nærri láta, að hann nemi 300 kr. á ári, sem þessi nefskattur á að vera á hvern mann, sem þessi vinna nær til. Þetta mundi ekki þykja neinn smáræðis nefskattur, ef hann kæmi fram í frumvarpsformi þannig, að hann ætti að greiða í peningum. Þegar mikið er um atvinnu, kemur þetta út beinlínis eins og þetta væri greitt í peningum, þó að á atvinnuleysistímum kæmi það öðruvísi út, þó að á þeim tímum mæli enn sterkari rök gegn slíkum ráðstöfunum. Ég fæ ekki séð, hvað þessi nefskattur, sem lagður er á með þessari kvöð til vinnu, er betri en aðrir nefskattar yfirleitt. Ef ríkinu þætti nauðsyn að afla sér tekna, hvers vegna á þá að fara þessa leið? Ég býst við, að þó margir hv. þm. séu fylgjandi nefsköttum til að afla tekna fyrir ríkissjóð, þá hygg ég, að þeim mundi þykja nokkuð langt gengið, ef allt í einu væri lagt til að leggja svona gífurlega skatta á hvern einasta mann á landinu á þessum aldri. Á þeim tíma, sem ríkissjóður hefur yfir svo miklu fé að ráða, að hæstv. Alþ. er í vandræðum með það, hvernig á að nota það, þá finnst mér þetta frv. alveg furðulegt. Frá öllum sjónarmiðum held ég, að þvingunarvinna sé sú óheppilegasta skattálagningaraðferð, sem hægt er að hugsa sér, og að ekki sé hægt að finna aðra lakari aðferð til þess að innheimta skatta með. Þeir, sem hafa séð fanga vinna í þvingunarvinnu og brezku hermennina vinna hér (það er sem sagt engin vinna), þeir geta gert sér í hugarlund, hvernig menn mundu vinna, sem með þvingunarl. yrðu settir í þegnskylduvinnu. Og þvingun getur ekki haft uppeldisgildi, heldur mun verða til þess eins að koma inn hjá mönnum óbeit á vinnu. Það eru sumir, sem halda því fram, að hér sé í raun og veru ekki um þvingunarvinnu að ræða, heldur heimildarl.

Það er nú eitt nýmælið í þessu frv., að þar er tekið upp tvenns konar lýðræði, annað fyrir sveitir og hitt fyrir kaupstaði. Í sveitunum er það almennur hreppsfundur, sem á að ákveða það, hvort nota skuli þessa heimild, en aftur á móti er það í bæjunum bæjarstjórn, sem á að ákveða þetta, og til þess að ákveða að nota heimild þessa þarf aukinn meiri hl., en þar nægir ekki einfaldur meiri hl., þar þarf 3/5 atkv. Þetta munar ekki miklu, til dæmis hér í Reykjavík þarf ekki nema 9 bæjarfulltrúa, í staðinn fyrir, að ekki þyrfti nema 8, ef einfaldur meiri hl. væri látinn ráða. Það passar nákvæmlega, að Sjálfstfl. mundi geta komið þessu í gegn (svo að ég taki þetta sem dæmi) móti atkv. hinna fl. Það væri því um hreina þvingun að ræða, ef þegnskylduvinna yrði samþ. hér í Reykjavík. Einkum er þetta þvingunarráðstöfun að því er bæina snertir. Auk þess álít ég, að slík l. séu mjög óheppileg að því leyti til, að það mundi skapa glundroða, ef þetta væri framkvæmt í sumum bæjar- eða hreppsfélögum, en sumum ekki, eins og bent hefur verið á. Og það hefur komið fyrir, að menn hafa flúið undan, minni skatti heldur en 300 kr. nefskatti á ári.

Þetta frv. er líka í algerðu ósamræmi við þá þáltill., sem samþ. var á hæstv. Alþ. um þetta mál í fyrra. Sú þáltill. var þess efnis, að semja skyldi frv. um þegnskylduvinnu, sem síðan yrði borið undir þjóðaratkvgr. Frá þessu hefur verið horfið, að spyrja þjóðina um þetta, eins og samþ. var á síðasta Alþ. Þannig hefur ályktun hæstv. Alþ. verið brotin og gengið beint á móti henni. Ég held, að ástæðan sé einfaldlega sú, að þeir, sem að þessu frv. standa, séu alveg sannfærðir um það, að ef málið væri látið fara til þjóðaratkvgr., þá mundi málið verða fellt. Samþ. þessara 1. hér á hæstv. Alþ. er því beinlínis brot á þessar í þáltill. frá því í fyrra og gengur beint á móti vilja þjóðarinnar.