12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

131. mál, þegnskylduvinna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vildi hara benda á það, að það frv., sem hér liggur fyrir, er um heimildarl. Í sambandi við það vildi ég aftur benda á það, að nokkrir hreppar á landinu hafa nú þegar komið á þegnskylduvinnu til þess að koma nauðsynjamálum í framkvæmd. Djúpárhreppur í Rangárvallasýslu hefur með þegnskylduvinnu komið upp hjá sér myndarlegu barnaskóla- og samkomuhúsi. Að því unnu allir hreppsbúar kauplaust, og ekki þurfti að leggja fram fé nema fyrir aðkeyptu efni. Með þessu var þeim þetta kleift, en ella mundi húsið óbyggt enn.

Ég skal benda á, að tvö kauptún hafa með svona vinnu ræktað land í kringum sig, þar sem allir menn kauptúnsins nú, eiga skepnur, sem þeir hafa nytjar af, samhliða sjósókn, sem oft er lítil og léleg, en þar sem íbúarnir þó hafa komizt yfir erfiðleikaárin án þess að safna skuldum. Það fauk skólahús í einu sjóþorpi, en nú er búið að koma öðru slíku húsi upp aftur með þegnskylduvinnu. Var þó um það deila mikil og skárust nokkrir úr leik, af því að það vantaði heimildarlög lík þessum. Víða eru verkefni, sem menn geta ekki leyst, en mundu geta það með þegnskylduvinnu. Þetta frv. lýtur ekki að öðru en því að heimila, þar sem svona stendur á, að koma á þessari vinnu til þess að geta hrundið í framkvæmd verkefnum, sem bíða úrlausnar, sem viðkomandi hreppsfélög geta ekki á annan hátt. Við höfum dæmi síðustu ára um það, að þetta hefur verið notað og reynzt ágætlega.

Ég vildi láta þegnskylduvinnuna færast mikið út til þess að gera stór átök í landinu í heild. En það hefur ekki þótt fært enn að leggja það fram. En þetta frv., sem hér er komið fram, er lítið spor í þá átt, sem þá getur gefið reynslu um málið. En væri haldið áfram á þeirri leið, álít ég, að það mundi geta orðið til þess að hrinda góðum málum áfram, og það stórmálum.