12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

131. mál, þegnskylduvinna

Brynjólfur Bjarnason:

Ræða hv. 1. þm. N.-M., og svo aftur ræða hv. 2. landsk. og aths. þær, sem hv. 1. þm. Eyf. var að skjóta fram í, sýna það, að hv. þm., hafa enn þá alls ekki gert sér ljóst, hver er tilgangurinn með þessu frv., og líklega hafa ekki heldur þeir, sem flytja málið, gert sér grein fyrir því. Hv. 1. þm. N.--M. lítur á þetta sem neyðarráðstöfun fyrir hreppa til þess að hrinda í framkvæmd ýmsum málum, sem þeir gefa ekki komið í framkvæmd á annan hátt, m. ö. o. eins konar nefskatt, sem sveitirnar eiga að fá heimild til að leggja á hreppsbúa til þess að afla fjár til þess að koma í framkvæmd nauðsynjamálum. Og ég held, að þetta sé líka aðaltilgangur frv. Aftur á móti álítur hv. 2. landsk. og hv. 1. þm. Eyf., sem var að skjóta orðum fram í ræðu hv. 2. landsk., að þetta sé uppeldismál. Ég tel það í sjálfu sér alveg ófært, að hæstv. Alþ. sé að samþ. frv., sem það veit ekki, hvað er meint með, hvort það sem l. á að vera til þess að stofna eins konar skóla eða stofna til þvingunarvinnu til þess að afla hreppsfélögum tekna, til þess að spara hreppsfélögum að borga útgjöld til ákveðinna framkvæmda. Ég vona, að flestir hv. þdm. geti orðið mér sammála um það, að það sé út af fyrir sig alveg ófært, að svona frv. gangi lengra áður en skorið er úr um tilgang þess. En að það hefur ekki verið gert, sýnir, hve framúrskarandi illa málið er undirbúið. (BSn: Getur það ekki haft tvenns konar tilgang?). Jú, en þá er eftir að rannsaka, hvort það getur farið saman, að þeim tvenns konar tilgangi verði náð í einu. Ég álít, að ef þetta á að vera nokkurs konar skóli, þá eigi menn ekki að geta keypt sig undan þessu, annaðhvort ætti þetta að vera skylduskóli eða skylduskóli ekki. Ef þetta er hugsað sem skóli, þá ætti að vera til tekið í frv., hvað ætti að læra í þessum skóla. En það kemur ekki fram í frv., enda hefur það komið fram í ræðum hv. þm. hér á þingi í umr. um málið, að tal hv. þm. um uppeldishlið þessa máls hefur ekki verið annað en slagorð út í loftið, til þess að skreyta það með stolnum fjöðrum.

Hv. 1. þm N.-T. sagði í ræðu sinni, að slíkri þegnskylduvinnu hefði verið komið á í nokkrum hreppum og benti á dæmi. Ég get bent hv. þm. á fleiri dæmi um slíka „þegnskylduvinnu“. Á Siglufirði var Alþýðuhúsið reist með slíkri „þegnskylduvinnu“. Í Vestmannaeyjum var Alþýðuhúsið líka reist með slíkri „þegnskylduvinnu“. Ég er samþykkur slíkri „þegnskylduvinnu“, því að þar var um frjáls samtök að ræða. Ef það er rétt hjá hv. þm., að nokkrir hreppar hafi komið slíku á hjá sér án heimildarl., þá er óþarfi að samþ. svona frv. Hvers vegna þurfa þessir hreppar svona l., ef þeir geta komið málum sínum í framkvæmd, eins og hv. þm. gat um, með þegnskylduvinnu án lagaheimildar? Síðar í ræðu sinni sagði svo þessi sami hv. þm., að hrepparnir þyrftu að hafa svona heimildarl. til þess að geta skyldað hreppsbúa til þess að vinna. En slík heimildarl. álít ég að sé rangt að setja.