03.04.1941
Efri deild: 30. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

69. mál, jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þegar framfærslun. ríkisins tók til starfa, mun hún hafa haft mjög í huga að finna úrræði til þess, að atvinnubótaféð kæmi að frambúðarnotum og skapaði aukna framtíðaratvinnu. Til þess að kynna sér ástandið ferðaðist Jens Hólmgeirsson milli flestra þorpa og verstöðva austan lands og norðan, og á Vestfjörðum var hann kunnugur fyrir. Við það staðfestist sú skoðun hans, að skapa þyrfti mönnum í þorpunum aðstöðu til að nota sér vinnu sína til framleiðslustar fa á landi þá tíma árs, sem lítil eða engin atvinna er við sjósókn og sjávarafla. Bæirnir og þorpin þurfa að hafa til umráða meira eða minna af ræktuðu eða ræktanlegu landi í því skyni. Það kom í ljós, að af um 70 þorpum og kauptúnum á landinu er næstum helmingurinn þannig settur, að einstakir menn eiga staðinn, sem þau standa á, eða mestallt ræktunarhæft land í kring. Almenningur hefur ýmist ekki aðgang að ræktunarlandi eða með óhentugum skilmálum og okurkjörurn. Hæst hefur leigan náð, þegar kálgarður var leigður með því lagi að gjalda helming uppskerunnar fyrir. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að hið fyrsta, sem gera þyrfti, væri að skapa mönnum aðstöðu til ræktunar með sæmilegum kjörum, svo að þeir gætu gert sér atvinnuleysisstundirnar arðbærar. þess vegna samdi n. frv. og sendi ríkisstj., sem lagði það svo fyrir síðasta búnaðarþing. Nokkrar breyt. voru gerðar á því á búnaðarþinginu, og í þeirri mynd, sem það fékk þar, er það flutt hér. Aðalefni frv. er, að heimilt sé, ef ekki semst um kaup á landi til nauðsynlegrar notkunar þorpsbúa, að taka slíkt land eignarnámi og leigja eða selja þeim með kostnaðarverði. Ég tel eðlilegt, að ríkið gerist milliliður í slíkum tilfellum, og þetta mál er ákaflega brýnt.

Breyt. þær, sem búnaðarþing gerði á frv., orka tvímælis, og ég tel þær til skemmda að því leyti, sem þær draga úr heimildinni til eignarnáms og þrengja möguleika fyrir að það verði notað. Þó að n., sem flytur frv., teldi rétt að láta það koma hér fram í þeirri mynd, sem það fékk á búnaðarþingi, hafa einstakir nm. óbundnar hendur um atriði, sem þeir hefðu sumir, ef ekki allir, kosið á annan hátt. Ég geri ráð fyrir, að undir umr. kunni að koma fram brtt., og áskil mér rétt til að styðja þær eða flytja, ef ekki næst samkomulag um að flytja þær í nefndinni.

Það væri hægt að benda á tvenns konar fiskiþorp með jafngóða aðstöðu til sjósóknar, en mismunandi aðgang að ræktunarlandi, og sýna, hvernig kröggur og atvinnuleysi hafa lagt annað þorpið í rústir, svo að það kemst ekki af án hjálpar hins opinbera, en hitt hefur bjargazt sæmilega án sýnilegs aðstöðumunar, nema þess, að ræktarland og búnaðar framleiðsla þorpsbúa með stuðningi af því hefur gert atvinnuleysistíma þess arðbæra á öðrum staðnum, en hinum ekki. Þeir hafa fyrst og fremst aflað sér nægilegs garðmatar og mjög margir haft kú eða aðrar skepnur, að afkoma í þeim þorpum ber af. Þó að einstöku menn telji, að þessi braut sé varhugaverð, því að þá rýrni markaður bænda í þorpunum, verður að líta á, hve mikil hollusta og óbeinn hagnaður verður í bráð og lengd að þessari smáframleiðslu, og á hinu leytinu ber að gæta þess, að flestir þorpsbúarnir, sem hér er um að ræða, eru kaupleysingjar á aðalvörur bænda úr nágrenni sínu; markaðsspilling af þessum smábúskap er því hverfandi lítil víðast.

Þar sem frv. kemur frá n., mun ekki þurfa að vísa því til n., en til þess vildi ég mælast við hæstv. forseta, að hann tæki það ekki aftur á dagskrá í þessari viku, meðan væntanlegar brtt. um nokkur atriði þess eru í smíðum.