07.04.1941
Efri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

69. mál, jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, var frv. þessu, sem upprunalega var sent búnaðarþingi af framfærslun. ríkisins, breytt. nokkuð, og miða þær breyt., sem n. hefur lagt til að gerðar væru á því, að því að færa frv. nær sinni upprunalegu mynd. Aðalbreyt., sem búnaðarþing gerði á frv., felst í b-lið 6. gr., sem búnaðarþing setti inn í frv., en búnaðarþing bar kvíðboga fyrir því, að ef leyft yrði að taka land utan þess hrepps, sem kauptúnið er í, gæti það m. a. leitt til óþæginda vegna álagningar útsvara. Nú er það svo, að ef við athugum þau þorp víðsvegar um land, sem hér gætu átt hlut að máli, munu vera yfir 10 þorp, sem þannig er ástatt um, að þau hefðu enga möguleika til þess að fá land til ræktunar, ef ekki mætti fara út fyrir takmörk þess hrepps, sem þau tilheyra, og yrði því frv. þetta gagnslaust hvað þeim viðvíkur, nema b-liður 6. gr. verði felldur niður.

N. leggur því til, að b-liður 6. gr. falli burt, en til þess að koma til móts við vilja búnaðarþings hefur n. bætt aftan við, c-lið, sem verður b-liður, grein þess efnis, að þurfi að taka land eignarnámi, sem liggur í öðru hreppsfélagi, megi það því aðeins, að landið liggi upp að hreppsmörkunum og verði hreppsmörkum þorpsins breytt þannig, að hið tekna land verði innan takmarka þess hrepps, er það notar.

Ég veit, að þetta verður dálítið vafningssamt í framkvæmd, en þó ætti það að vera vel framkvæmanlegt og er þá náð því marki, sem fyrir framfærslun. vakti, og jafnframt komið í veg fyrir, að kauptún þurfi að hafa land í fleiri hreppum, og þar með því, sem fyrir búnaðarþinginu vakti.

Þessar brtt. er n. öll sammála um og leggur til, að þær verði samþykktar.