13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

69. mál, jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa

Skúli Guðmundsson:

Þetta frv. er um heimild til ríkisstj. til að kaupa jarðir, lönd og lóðir í kauptúnum og sjávarþorpum eða í grennd við þau. Í 6. gr. frv. eins og það koma frá Ed. er ætlazt til þess, að til geti komið, að slík lönd séu tekin eignarnámi, ef ekki næst samkomulag, og fari fram eftir lögum frá 1917. Í 6. gr. er vel séð fyrir því, að ekki verði um of þrengt að einstökum mönnum, sem eiga löndin, sem sé í b-lið G. gr. Það er tekið fram, að áður en eignarnám fari fram, skuli leitað ráða og umsagnar Búnaðarfélags Íslands, og að eignarnám megi ekki gera nema með þess samþykki. Er svo ákveðið, að Búnaðarfélag Íslands skuli sérstaklega gæta þess, að ekki verði um of þrengt að hagsmunum annarra aðila í hreppnum, og eigendur geti haldið eftir hæfilega stóru landi til að geta haft þar sjálfstæðan rekstur. Í frv. eins og það liggur fyrir er ákveðið, að ef þurfi að taka land eignarnámi, sem liggur utan hreppsfélags, megi það því aðeins gera, að landið liggi að hreppsmörkum. Verður þá mörkunum breytt svo, að landið verði innan þess hrepps, sem fær það til afnota. Landbn. hefur á þskj. 454 lagt til, að ef þarf að taka land eignarnámi, sem liggur í öðru hreppsfélagi, skuli það gert með sérstökum l. Hins vegar hefur n. ekki gert neinar brtt. að öðru leyti við frv., og virðist það því álit n., að nógu vel sé fyrir því séð í frv., að ekki muni um of þrengt að einstökum eigendum. Það vakir því fyrir n. að koma í veg fyrir, að nágrannahreppur, sem land er tekið frá, verði fyrir tjóni. Það verði tekið til meðferðar sérstaklega á Alþ. í hvert sinn og farið er út yfir hreppamörkin. Það liggur fyrir brtt. frá mér og hv. þm. Seyðf. í. stað brtt. landbn., um, að ef land er tekið utan hrepps, skuli séð fyrir því, að sá hreppur, er landið fær, skuli bæta hinum hreppnum tekjurýrnunina eftir mati dómkvaddra manna, ef ekki næst samkomulag. Í sveitarstjórnarl. er svo ákveðið, að atvmrh. geti skilið hreppa eða sameinað eftir beiðni hreppsn., og hreppum hefur oft verið skipt að undanförnu. Gilda sérstakar reglur um það. Ef til kæmi, að tekið yrði land frá öðrum hreppi, getur það haft í för með sér breyt. á fjárhag beggja hreppa, og þá er eðlilegt, að sá hreppur, er landið missir, fái bætur frá hinum. Viljum við láta það koma skýrt fram í l., að til bóta sé ætlazt. Kemur þá til athugunar bæði tekjumissir og hvort þessi breyt. á hreppamörkunum hefur áhrif á framfærsluskyldu hreppanna.

Við sjáum ekki, að það sé ástæða til, að brtt. landbn. verði samþ., ef okkar till, verður samþ., enda mundi okkar till. ekki eiga við, ef till. landbn. væri samþ. Við óskum sem sé, að okkar till. komi í staðinn fyrir till. landbn. og vonum, að nm. geti á það fallizt.