03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Sveinbjörn Högnason:

Ég hef lagt hér fram nokkrar brtt. við þetta frv., sem ég tel vera til samræmis við það, sem ákveðið er í 1. um húsmæðrafræðslu í sveitum. Mér virðist, að sem mest jafnrétti eigi að vera þar á milli, eftir því sem aðstaða er til á báðum stöðum.

Fyrsta brtt. við frv. er við 8. gr. 3. málsl., að . í stað kr. 440.00 fyrir hvern nemanda umfram 15 fyrstu komi kr. 200.00. Það skal tekið fram, að í löggjöfinni um húsmæðrafræðslu í sveitum landsins er ákveðið, að þetta séu kr. 400.00, en þess ber að gæta, að þar er eingöngu. um heimavistarskóla að ræða. Engar stúlkur geta sótt þessa skóla nema með því að vera burtu frá heimilunum og kosta sig þannig að öllu leyti til heimavistar, meðan þær dvelja í skólunum. Í kaupstöðum er viðhorfið allt annað. Þar verða skólarnir fjölmennari, og þær, sem þurfa að sækja þá, geta sótt þá undantekningarlaust frá heimilum sínum og hafa þar af leiðandi allt annan kostnað af skóladvölinni. Auk þess er það sjáanlegt, að vegna fjölmennisins fengju kaupstaðaskólarnir allt annan styrk heldur en sveitaskólarnir með því að fá jafnhátt fyrir hvern nemanda. Aðstöðumunurinn er svo mikill, að það verður vitanlega að taka tillit til hans.

Næsta brtt. við sömu grein, b-liður, er, að í lok greinarinnar falli niður: „Óheimilt er að taka kennslugjald“. Það er ekki í lögunum um húsmæðrafræðslu í sveitum landsins, að hún skuli vera ókeypis, og skil ég ekki, að hún eigi frekar að vera ókeypis í kaupstöðum, þar sem þeir eiga á allan hátt að fá hana ódýrari og eiga betra með að greiða kennslugjald. Ég sé ekkert athugavert við það, þó að kennslugjald sé tekið. Þó það yrði ekki mikið, þá munaði dálítið um það til þess að létta undir rekstri skólans.

Önnur brtt. mín er við 9. gr., að í stað niðurlags greinarinnar, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fræðslumálastjórnin úrskurðar um heimavistargjald, eftir tillögum skólanefndar“ komi: Heimavistargjald má þó aldrei taka. hærra en 45.00 kr. á nemanda fyrir skólaárið. — Ef heimavist væri við þessa skóla í kaupstöðunum, þá er þarna veitt miklu rýmri heimild til að taka gjald fyrir hana heldur en í lögunum um húsmæðrafræðslu í sveitum, þar sem það er ákveðið, hvað megi taka hátt heimavistargjald fyrir skólaárið þar. Ég vil leggja það til, að hér sé sett sama ákvæðið sem er í lögunum um húsmæðrafræðslu í sveitum, að heimavistargjald megi aldrei vera meira en 45.00 kr. á ári. Það virðist ekki nein ástæða til þess að hafa hérna annað ákvæði í þessu efni.

Loks er 3. brtt. mín. Hún er við 10. gr. um það, að fyrri málsgr. greinarinnar falli niður. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Nú er húsmæðraskóli rekinn í leiguhúsnæði, og greiðir ríkissjóður þá árlega hálfa húsaleiga, enda samþykki fræðslumálastjórnin húsnæði og leigumála.“ Þessi heimild um að taka húsnæði á leigu í sveitum til þess að reka heimavistarskóla er ekki í lögunum um húsmæðrafræðslu í sveitum landsins. Það gæti verið varhugavert, að hver sem væri mætti taka hús á leigu til þess að reka þessa skóla, sem njóta jafnríkulegs styrks og hér um ræðir. Ég sé ekki, að frekar sé ástæða til að hafa þessa heimild heldur en talið hefur verið í lögunum um húsmæðrafræðslu í sveitum. Allar þessar till. eru miðaðar við það að koma á meira samræmi milli húsmæðrafræðslu í kaupstöðum og sveitum. Það er í alla staði eðlilegt að gæta þess að hafa sem mest jafnrétti þar á milli. Það gæti verið hættulegt fyrir sveitirnar, ef það að einhverju leyti væri betra að reka húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, því þá mundi fólkið frekar fara þangað, og það er hætt við, að samkeppnin milli þessara skóla yrði ójafn leikur. Það verður vitanlega að ætlast til þess, að þær, sem ætla sér að verða húsmæður í sveitum, sæki þá skóla, sem þar eru. Það þarf að miða löggjöfina við tvenns konar þarfir og sníða hana þannig, að það rekist ekki á, þegar til framkvæmdanna kemur.