03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Bjarni Bjarnason:

Þegar samþ. voru lögin um húsmæðrafræðslu í sveitum, var einnig gefið fyrirheit um að setja á svipaða löggjöf í kaupstöðum. Ég tel því, að þetta þing, sem nú situr, sé í raun og veru bundið við að afgreiða frv. það, sem hér liggur fyrir, um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Þar sem yfirleitt var samkomulag um lausn laganna um húsmæðrafræðslu í sveitum,. þá vil ég mjög æskja þess, að einnig takist samkomulag um þetta mál. Ég vil því óska þess, að málinu verði ekki lokið í dag, heldur verði því frestað, svo að hv. menntmn. þessarar d. geti fengið tækifæri til að taka till. á þskj. 316 til athugunar í því trausti, að n. takist að finna einhverja samkomulagsleið og geti sameinað í þessum till. það, sem ágreiningi hefur valdið og ekki er stærra en svo, að við ættum að geta leyst málið með samkomulagi. Það er í raun og veru kaup kaups, því við fengum lögin um sveitaskólana með samkomulagi, og eins ætti þetta að fást á sama hátt. Hins vegar gæti komið til athugunar, hvort staður eins og Reykjavík hefði þörf á að fá sama styrk, því vitanlega verða skólarnir hér stærri en annars staðar.