26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög

*Pálmi Hannesson:

Ég hef gerzt hér flm. ásamt ýmsum öðrum hv. þm. að nokkrum brtt. við fjárlagafrv. Ég mun ekki gera hér grein fyrir mörgum af þessum till., og munu aðrir hv. Þm. gera það, þegar þeir taka til máls. Þó eru hér tvær brtt., sem ég vildi leyfa mér að fara fáum orðum um. Sú fyrri er á þskj. 619,XVII, og er hún um, að nýr liður bætist við útgjöldin vegna veiðimála, til Þórs Guðjónssonar til að nema vatnafræði og fiskifræði. Eins og hv. þm. mun kunnugt, hefur verið gerð sú breyting á l. um lax- og silungsveiði á þessu hv. Alþ., að bráðabirgðaákvæðin hafa verið felld . niður, og þar með fallnir úr gildi þeir kaflar 1., sem ákváðu, að framkvæmd þessara l. yrði slegið á frest. Samkv. einum þessum kafla, um stjórn veiðimála, ber að skipa veiðimálastjóra, sem hefur umsjón með öllu, er að veiðiskap lýtur., Ég skal játa það, að í nokkur ár undanfarið hef ég verið á hnotskóg eftir slíkum manni, sem ég teldi hæfan til að takast á hendur nám í þessum greinum, og ég þykist hafa fundið hann í Þór Guðjónssyni stúdent, og brtt. mín fjallar um þetta. Nú er svo komið, að engin leið er fyrir slíkan námsmann að leita fræðslu í þessum greinum annars staðar en í Ameríku, og þá er þess ekki kostur, að hann geti af sjálfsdáðum tekizt veiðimálastjórastarfið á hendur. Þess vegna er þessi brtt. borin fram, og er þetta ekki almennur heldur sérstæður styrkur, sem að nokkru leyti hlýtur að standa í sambandi við þær samþykktir, sem þetta Alþ. hefur nú gert. Ég vil því vona, að hv. alþm. taki tillit til þessa, Þegar til afgreiðslu kemur um þessa brtt.

Þá á ég hér ásamt 9 öðrum hv. þm. brtt. á þskj. 622,VI um breyt. á fjárframlagi til skógræktarstarfs. Við höfum orðið ásáttir um að bera fram till. um slíka hækkun, og er hér um að ræða 15 þús. kr. hækkun til skóggræðslu, 5 þús. til skógræktarfélaga. Vissulega skal það viðurkennt, að hv. fjvn. hefur tekið með skilningi á málum skógræktarinnar að þessu sinni. Okkur virtist þó æskilegt, að nokkru meira fé væri várið til þeirra mála. Vil ég leyfa mér að geta örfárra atriða í þessu sambandi.

Fram að þessu hafa skógræktarmálin á vissan hátt hvílt á skáldlegri afstöðu hjá þjóðinni. Menn hefur langað til, að landið klæddist skógi, eins og það var á fyrstu dögum, þegar þjóðin tók við því. Þetta er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt. En fjárframlög hafa miðazt við Þetta og skorin mjög við neglur sér og ekki áunnizt annað en að nokkrar skógarleifar hafa verið friðaðar, Menn hafa verið í varnarstöðu gagnvart þeim öflum, sem gengið hafa á íslenzku skógana. Það er ekki nokkur vafi á því, að á síðustu áratugum hafa horfið skógarleifar, sem annars hefðu haldizt til þessa tíma. Hver hv. þm. getur skoðað í hendi sér, hve óvíða eru skógargirðingar, og játað, að Þær eru allt of óvíða. Nú er það ekkert álitamál, að skógræktin hefur ekki einasta skáldlegt gildi, heldur er hún geysimikið hagsmunamál. Þetta hafa Norðmenn séð fyrir löngu, að vísu undir forystu skálda sinna, og hafa þeir skógrækt í stærri stíl heldur en þekkist annars staðar í Evrópu. Árangurinn er sá, að skógarhögg er nú aðalatvinnuvegur landsmanna. .

Nú munu menn ef til vill segja, að ekki borgi sig að rækta greniskóg hér og birkiskógur verði ekki útflutningsvara. Þessu er því til að svara, að skógur er ekki aðeins notaður sem byggingarefni, heldur er hann fyrst og fremst iðnaðarvara, t. d. er skógarviðurinn undirstaða fyrir framleiðslu á pappír og ýmsum öðrum lífsnauðsynjum. Ég tel birkið engu síður þarflegt en grenið, og það væri geysimikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að geta fengið byggingarefni úr skógum landsins, og það er öðru nær en að slíkt sé útilokað. Eins og hv. þm. er kunnugt um, er góð von um, að rækta megi hér barrtegund, sem mætti síðan nota sem byggingarefni. Þessi barrtegund var fengin frá Alaska.

Þá vík ég aftur að því, að hingað til höfum við verið í varnarstöðu um skógræktunina. En nú finnst mér tími kominn til að gera nokkuð meira. Má segja, að sjávarafurðir hafi gefið þjóðinni mikinn auð á þessu ári. Þess vegna virðist okkur flm. mjög svo tímabært að verja tiltölulega stórri upphæð af þessu fé til skóggræðslu. Það, sem vakir fyrst fyrir, er að friða allt skóglendi, sérstaklega girða af skógarleifur, og svo fjölga trjáplöntunum. Hingað til höfum við ræktað skógarplöntur í hundraðatali, en eigi árangurinn að verða góður, verðum við að hugsa í hundruðum þúsunda plantna, þegar um skóg er að ræða. Þá fyrst má búast við, að náist sá árangur, sem gæti orðið til verulegra nytja fyrir landið. Mér virðist Mjög eðlilegt, þegar af mjög óvenjulegum ástæðum berst mikill auður inn í landið, að menn hugsi þá til þess að gefa landinu sjálfu nokkuð, sem mætti kalla til landsþakka. Ég efast um, að þeirri upphæð yrði betur varið á annan hátt en til þess að auka skógræktina í landinu. hetta eru í stuttu máli rök mín fyrir þessum 2 till., sem ég vildi sérstaklega mæla fyrir.

Ég vil nú ekki lengja mál mitt mikið. Ég er hér, ásamt tveimur öðrum hv. þm., flm.till. um nokkra hækkun á framlagi til íþróttasjóðs, og skal ég ekki fjölyrða mikið um það. Eins og nú horfir, þá virðist, því miður, koma fram mikill misbrestur á dug og þrótti unga fólksins í landinu. Ég og aðrir þeir, sem við uppeldi hafa fengist sjáum ekki aðra leið til bóta heldur en efla íþróttastarfsemi í landinu.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á 11. till. á þskj. 638. Er hún flutt af atvmrh., nýr liður, til byggingar sjómannaskóla, 1. greiðsla, 500 þús. kr. Mér þykir furðulegt að sjá svo stóra upphæð koma inn í brtt. við 3. umr. fjárl., ekki sízt með tilliti til þess, að hér hefur legið fyrir frv. um byggingu sjómannaskóla, sem hefur gengið í gegnum nokkrar umr. og búast má við, að verði að l. Þessi brtt. felur í mínum augum í sér grun um, jafnvel þó mér finnist óeðlilegt að bera fram svo seint jafnháa brtt., að það muni tæplega verjandi að koma ekki með svipaða till. um þann skóla, sem ég veiti forstöðu. Öllum er kunnugt um, að húsnæði menntaskólans í Reykjavík var tekið af brezkum hernaðaryfirvöldum á síðastl. ári. Hann, einn allra skóla í landinu, hefur orðið að búa húsvilltur síðan. Fyrst þegar stofnunin var að hverfa úr sínu gamla húsi, var því lofað af þeim, sem tóku húsið, að því skyldi skilað fyrir 1. okt. 1940. Þegar leið að þeim tíma, var það loforð ekki haldið og skólanum fengið húsnæði á tveim öðrum stöðum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. gera sér það ljóst, að fyrir gamla skóla, eins og menntaskólann, er það erfiðara en ætla mætti að vera r ifinn upp frá húsnæði sinu og látinn hafa húsnæði án allrar geymslu, jafnvel þó að í nýju húsi sé. Ég skal enn fremur upplýsa það, að fyrst var skólahúsið notað fyrir yfirherstjórnina brezku hér, en síðastl. haust flutti hún burt, og þá var húsið gert að sjúkrahúsi fyrir herinn yfir vetrartímann. Þá var enn skipt um og inn komu flugliðar, og eftir því, sem mér er tjáð af þeim, sem þar ráða húsum nú, er engin von til þess, að skólinn fái húsnæði sitt aftur fyrr en að stríðinu loknu. Þrátt fyrir að skólanum bregði nú við að missa sitt gamla húsnæði verður það aldrei fullnægjandi sem skólahús í framtíðinni. Fyrir 100 árum var tekin ákvörðun um að byggja skólahús, og var flutt í það 1846. Mætti telja eðlilegt, þó að hernámið hefði ekki komið til sögunnar, að hugsað yrði til þess að endurnýja þetta húsnæði, þegar að því líður, að það verði 100 ára. Þar sem skólahúsið er nú í hers höndum, ætti að vera enn brýnni ástæða til þess, að fyrirsvarsmenn hans myndu eftir því, að hann þarf húsnæðis við. Hér er farið fram á mjög mikla upphæð sem fyrstu greiðslu til byggingar sjómannaskóla. Og allir eru sammála um, að nauðsynlegt sé að reisa sjómannaskóla. En sjómannaskólinn hefur samt miklu betra húsnæði en menntaskólinn og sæmilega rúm fyrir sinn nemendafjölda. Ég hefði því; ef mig hefði grunað, að slík till. kæmi fram nú, talið mér skylt að bera fram till. um svipaða upphæð handa menntaskólanum í Reykjavík, og ég hlýt að telja það réttlætiskröfu til ríkisstj., að hún gleymi ekki elztu menntastofnun landsins og láti hana ekki vera lengi á hrakningi. Ég veit ekki, hvort það muni þykja tiltækilegt, en ég mun leita þess við forseta, hvort hann vill taka við brtt. á þessu stigi málsins, eða hvort réttara er að bíða næsta þings, en verði till. um sjómannaskóla samþ., vil ég vænta þess, að Alþ. telji sér eðlilegt og skylt að standa að fjárveitingu til að reisa hús undir menntaskólann í Rvík, þegar unnt er.

Hv. þm. V. Sk. hefur getið um till., sem ég er meðflm. að, þskj. 619,XIV. Hann flutti svo mikil rök að henni; að ég sé ekki ástæðu þar við að bæta. Eins hefur hv. 2. þm. Eyf. getið um till. okkar um aukna fjárveitingu til Siglufjarðarskarðs, svo að ég þarf ekki annað en aðeins að minna hv. þm. á þessar till. Að síðustu vil ég aðeins endurtaka það, að ég vænti þess og vil skjóta því til hv. form. fjvn., sem nú situr í forsetastóli, að n. vilji taka vel till. minni um námsstyrk til að nema vatnalíffræði og till. okkar tveggja þm. til aukins styrks til skógræktarmála landsins.