05.05.1941
Neðri deild: 51. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Bjarni Bjarnason:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð í sambandi við brtt. á þskj. 362. Þau atriði, sem þar eru nefnd, eru í sjálfu sér ákaflega smávægileg, og ég get getið þess, að í raun og veru leggur menntmn. enga áherzlu á þá viðbót, sem þar er, eða á þá breyt., að ef nemendurnir séu yfir 30, þá sé styrkurinn á hvern nemanda 300 kr. í stað 400 kr., eins og er í frv.

Sannleikurinn er sá, að fæstir skólar munu hafa fleiri en 30 nemendur, þannig að þetta lækkandi framlag mundi sennilega ekki verka, nema ef vera kynni hér í Reykjavík, og stúlkurnar yrðu þá sennilega það margar, að reksturskostnaðurinn yrði tiltölulega dálítið ódýrari.

Viðvíkjandi 2. lið brtt., þá held ég, að hyggilegast sé að setja hámark á húsaleigu þá, sem stúlkurnar eiga að greiða, til þess að ekki yrði fundið upp á því að setja húsal. eða það, sem í frv. er kallað heimavistargjald, óþarflega hátt.

Þessi till. var hér áður á ferðinni og var þá talað um 45 kr., en við því kom brtt. á síðasta fundi frá hv. þm. V.-Ísf., að þetta yrði lækkað niður í 40 kr. Ég held, að það sé nú rétt að koma þessu atriði inn í frv., en hitt atriðið, um 300 eða 400 kr., skiptir litlu máli, og menntmn. leggur alls enga áherzlu á það, en hefur orðið sammála um það að afgreiða frv. á þeim grundvelli, að allir megi vel við una.

Ég vil einnig benda á það, að það er gert ráð fyrir því í frv., að stofnstyrkurinn verði greiddur að helmingi úr ríkissjóði og helmingur annars staðar frá, eins og var áður ríflegast, þ. e. a. s. þangað til hlutfallinu var breytt gagnvart héraðsskólum, og nú er einnig verið að breyta gagnvart húsmæðraskólum í sveitum. Gagnfræðaskólar fá 2/5 á móti 3/5, svo við vildum hafa þetta heldur ríflegra til þessara skóla en áður hefur verið til gagnfræðaskóla.