05.05.1941
Neðri deild: 51. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Finnur Jónsson:

Það hefur á engan hátt sýnt sig, að það væri nokkuð léttara að koma upp húsmæðraskólum í kaupstöðum en sveitum. A. m. k. hefur reynslan orðið sú, að sveitirnar hafa orðið á undan, en kaupstaðirnir langt á eftir. Og ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á, að það sé neinn jöfnuður í því, að ekki sé gert hlutfallslega eins við húsmæðraskóla, hvort sem Þeir eru í sveitum eða kaupstöðum. Óska ég því eindregið eftir því, að það komi í ljós við þessa umr., hvort, endilega á að halda því fram, að það eigi að gera mismun á húsmæðraefnum eftir því, hvort þær eiga heima í sveitum eða kaupstöðum.

Ég tel slíkt ekkert annað en rangindi og álit því rétt, að það komi í ljós við afgreiðslu þessa máls nú þegar, hvort rétt sé, að ríkið leggi fram ½ eða 3/4 fyrir stofnkostnað skólanna, og eins og ég hef þegar lýst yfir, þá er fylgi mitt eða andstaða við þetta frv. undir því komið, hverja úrlausn þessi brtt. mín og hv. 6. þm. Reykv. fær hjá hv. deild.