21.05.1941
Efri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Ég ætla aðeins að koma með örfáar athugasemdir, því það eru mörg mál á dagskrá og ég býst ekki við, að hvorki meiri eða minni hl. sannfæri hv. d. í þessu máli frekar en öðrum málum.

Ég ætla aðeins að rifja það upp, að hv. meiri hl. hefur orðið að játa, að málið er undirbúið á dularfullan hátt, ekki af stj. og ekki af hv. Nd., heldur er það undirbúið af einhverjum öðrum aðila, sem hv. þm. segir, að sé ákaflega vel að sér. En einu gleymdi hv. meiri hl., en það var það, að þessi ákaflega gáfaði maður, sem gerði frv., ætlaðist til, að það væri bara helmingur stofnkostnaðar lagður á ríkið. Ég verð að benda hv. þm. á það, að það er erfitt fyrir hann og hans skoðanabræður að ganga ofan í svona grunnmúrað álit þessarar virðulegu persónu, þó að mér finnist, að með þeim fögru orðum, sem fram hafa komið hjá hv. þm. um undirbúning í þessu máli, þá ætti hann að reyna með brtt. að hefla burt þann smíðagalla, sem komið hefur hér fram. Viðvíkjandi kostnaði verður hv. landsk. að játa það, að skólar í sveitum geta ekki tekið nema lítinn hluta þeirra stúlkna, sem þar vaxa upp, og það er ekki rétt að leggja sama þunga á borgara þeirra sveita vegna þeirrar takmörkuðu tölu af unglingum, sem þar geta komið til greina. Ég get óskað hv. 2. landsk. til lukku með sína heimavist. Hann er orðinn sannfærður um, að hún eigi að vera í þessum skóla. Sannleikurinn er, að ekki er til einn einasti heimavistarskóli í Reykjavík, að undanskildu því, að fáeinar stúlkur eru í heimavist í kvennaskólanum, en sá skóli er einkafyrirtæki. Það er erlendis heimavist í skólum fyrir ríkra manna börn, sem eru utanbæjar. En Reykjavík hefur ekki farið svona að með neinn af sínum skólum, sem mun m. a. stafa af því, að mönnum hrýs hugur við kostnaðinum. Af þessari skoðun hv. frsm. Meiri hl. kemur, að ef hún væri framkvæmd, þá væri í raun og veru eðlilegast að setja upp heimavistarskóla í sveitum fyrir húsmæðrafræðslu, og þá væri að mjög verulegu leyti gengið í þá átt, sem ég býst við, að hv. 2. landsk. vildi gjarnan, að einangra stúlkurnar frá öllum solli, og óneitanlega verður það bezt gert með því að hafa þær uppi í sveit. Og þá verður styrkur til þessa skóla eins og heimavistarskóla í sveit. Og þegar komið er til alvörunnar, þá er þetta heimavistarákvæði komið inn í frv. af því að frv. er svo illa undirbúið. Þetta ákvæði hefur verið apað eftir sveitaskólunum, alveg eins og t. d. að kona, sem væri að fara á dansleik hér í höfuðstaðnum, byggi sig eins og fjármaður á Norðurlandi, sem fer út í stórhríð.

Ég get fullvissað hv. 2. landsk. um það, að þessi heimavist hans er bezt á pappírnum. En það er ekki mikil hætta á, að Reykvíkingar færu að snúa sér að því að stofna svona skóla fyrir sínar dætur, nema þá að það verði svo mikið fé til í ríkissjóði einhvern góðan veðurdag.

Hv. 2. landsk. reyndi ekki að svara því, hvers vegna væri ástæða til þess, að bærinn borgaði minna til kvennaskóla en gagnfræðaskóla. Ég skoða þetta sem uppgjöf af hans hálfu, enda er ekki hægt að útskýra það.

Ég ætla að lokum að undirstrika það, sem ég hef sagt hér áður fyrr, að ég þykist vita, að hv. þm. og ýmsir hans samstarfsmenn hafi hug á að samþ. þetta frv. óbreytt. Mínar till. bíða þá eftir því, þegar farið verður að klífa niður stigann aftur í þessu efni.