26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér nokkrar brtt. við fjárl., bæði sem fyrsti flm. og sömuleiðis með öðrum hv. þm., og ætla ég að minnast hér nokkuð á þær till., sem ég er fyrsti flm. að.

Þá er fyrst till. á þskj. 619,IX, um styrk til Þorvalds Þórarinssonar lögfræðings til framhaldsnáms í Ameríku. Ég hef tekið eftir því, að í till. fjvn. er einn liður um styrk til lögfræðings til vesturfarar til framhaldsnáms á þessu sama sviði, og get ég í þessu sambandi vitnað í rök þau, sem hv. frsm. fjvn. færði fyrir þeim lið.

Það hefur verið venja undanfarin ár, að ungir lögfr., eftir að þeir hafa útskrifazt við háskólann hér, hafa fengið fjárstyrk til að nema erlendis, og hefur það aðallega verið í Englandi, Noregi, Þýzkalandi og Danmörku. Nú eru leiðir lokaðar í þessar áttir, en aftur á móti hafa greiðzt samgöngur vestur til Ameríku, og leiðir manna, sem framast nú erlendis, liggja því vestur um haf. Ég býst líka við, að þó að samgöngurnar færu í sama horf aftur, þegar styrjöldinni lýkur, sem maður vonar nú að verði bráðlega, þá muni halda áfram meiri samgöngur milli Ameríku og Íslands en áður hefur verið, og er því vel til fallið, að knýtt sé þar menningarband á milli, með því að ungir íslenzkir námsmenn geti stundað þar framhaldsnám og kynnzt menningu og lífi hinnar merku þjóðar vestan hafs.

Þorvaldur Þórarinsson lauk lagaprófi fyrir 4½ ári með fyrstu einkunn. Ætlar hann aðallega að leggja stund á réttarfarssögu og viðskiptalöggjöf Vesturálfuþjóða, og er ekki nema vel til fallið, að við kynnum okkur meira starfsaðferðir og menningu hinna voldugu þjóða. — Þessi orð munu þá nægja um þennan lið.

Ég á hér 2 till. á sama þskj., með hv. 2. þm. Skagf., sem hann talaði fyrir, og mun ég láta Það nægja, sem hann sagði um þær. En vil aðeins geta þess viðvíkjandi till. okkar um hækkun á styrk til nýbýla og samvinnubyggða, að mér finnst sanngjarnt, að sú fjárveiting, sem við förum fram á til nýbýla, verði í samræmi við það, sem ríkið hefur nú þegar gert gagnvart Fiskveiðasjóði Íslands. Samkv. frv. leggur ríkið Fiskveiðasjóði til yfir 400 þús. kr., sem stafar að nokkru leyti af því, að Fiskveiðasjóður hefur á undanförnum árum ekki notið til fulls þeirra tekna, sem upphaflega var til ætlazt með stofnun hans. Í því sambandi vil ég geta þess, að Búnaðarbanki Íslands hefur ;á undanförnum árum verið sviptur tekjum, sem honum voru ætlaðar með sérstökum lögum, þannig, að greiðslum til bankans var frestað á allálitlegri upphæð, eða upphæð, sem nam á 5. hundr. þús. kr. Nú sé ég, að fjvn. ætlar að taka upp 29 þús. kr. á þessum greiðslum, svo það er sýnilegt, að meginhluti þess fjár, sem Búnaðarbankinn á siðferðislegar kröfur á hendur ríkinu, mun liggja niðri.

Mér datt í hug að bera fram till. um, að Búnaðarbankanum yrði greidd þessi upphæð nú, en ég hef horfið frá því, en mér þykir rétt, að nýbýlasjóður njóti þess að einhverju leyti, og mætti það vera á þann hátt, að sú upphæð, sem ætluð var Búnaðarbankanum, en var af honum tekin með sérstökum lögum, gangi nú til nýbýlasjóðsins.

Ég er meðflm. að till. á þskj. 622,VI um hækkun á fjárveitingu til skóggræðslu og skógræktarfélaga. Hv. 1. þm. Skagf. talaði fyrir þessu, og mun ég þar engu við bæta, en vil aðeins undirstrika þau orð hans, að það er mjög vel til þess fallið, ef hægt er að handsama eitthvað af þessum svipta gróða og festa hann til frambúðar í landinu, því að allt, sem gert er í þeim málum, er gert fyrir framtíðina og ber ávöxt, þegar fram í sækir.

Þá er brtt. á þskj. 638,IV, um styrk til handíðaskólans. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé kunnug starfsemi þess skóla. Þetta er nýjung, sem upp hefur verið tekin í handiðum, og er einkum kennt ungum kennaraefnum við kennaraskólann o. fl., svo þeir geti dreift þessari menntun út um landið, eftir því sem við verður komið.

Ég sé á nýútbýttu þskj., að fjvn. hefur borið fram till. í þessu sama skyni, ekki fjarri því, sem við till. menn höfum farið fram á, og tökum við því okkar till. aftur og væntum þess, að till. fjvn. verði samþ.

Þá á ég aðra till. á þskj. 638,XIV. um eftirlaun til Ingólfs Gíslasonar, fyrrv. héraðslæknis, 1000 kr. Hann hefur starfað sem læknir um 40 ár í örðugum héruðum. Að vísu hin seinni ár ekki í verulega örðugum héruðum, en í sveitum, þar sem hann hefur oft orðið að leggja á sig mikið erfiði og ferðalög. Þessi fjárveiting, sem ég fer hér fram á, er í samræmi við það, sem læknum, sem lengst hafa starfað úti um land, hefur verið veitt undanfarin ár, og eru svipaðar greiðslur til lækna í fjárl. nú.

Ingólfur Gíslason hefur alltaf verið mjög vinsæll maður, og hefur hann oft lent í svaðilförum, eins og venja er um lækna, sem starfa úti um land, og þannig héruð eru lítið eftirsótt af læknum, og þó að fullt sé af læknum, er oft vont að fá þá í erfið héruð úti um land. Það er því ekki nema sjálfsagt, að þessum manni verði af hálfu ríkisins launað vel og rækilega unnið ævistarf, á svipaðan hátt og ríkið hefur áður launað slíkum starfsmönnum, og vil ég vænta þess, að hv. Alþingi viðurkenni þetta með því að samþ. þessa till.

Þá á ég till. á sama þskj., XVII, lið, um heimild fyrir ríkissjóð til að greiða frú Fríðu Einarsson, kjördóttur Guðmundar Magnússonar, prófessors, 2000 kr. styrk. Guðmundur heitinn Magnússon var vel fjáður maður, en gaf mikinn hluta auðæfa sinna til háskólans, þegar hann féll frá. Þessi kjördóttir hans er bláfátæk og er að herjast áfram fyrir sér og börnum sínum, og ég álit, að það væri sjálfsagt að minnast Guðmundar heitins Magnússonar og hans rausnarlegu gjafar á sínum tíma með því að veita þessari kjördóttur hans ofurlitla hjálp til þess að bjargast áfram á næsta ári. Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þessa till.

Á þskj. 638,XX er till. frá hv. þm. Árn. um það að ábyrgjast fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og Sandvíkurhrepp samtals allt að 720 þús. kr. lán til rafveitu frá Sogsvirkjuninni til ofangreindra hreppa. Önnur till. svipuð þessu hefur verið borin fram af hv. 5. landsk. þm.

Ég og hv. þm. Borgf. höfum hér rætt um það öðru hverju á þessu þingi að bera fram sams konar heimild fyrir þau héruð, sem við erum fulltrúar fyrir, með því að það liggur fyrir rækileg rannsókn og kostnaðaráætlun fyrir virkjun Andakílsár fyrir héraðið, og er það mjög álitlegt fyrirtæki og í alla staði hagkvæmt eins og ástæðurnar voru fyrir styrjöldina. En við hikuðum við að bera fram slíkar till., því að á þessum tímum væri það meira til að sýnast en vera, þó að við álítum, að það sé engu síður réttmætt að fara fram á fjárveitingu til þessa fyrirtækis en til þess, sem hér er farið fram á. Ég vil hins vegar segja, að við teljum það tvímælalaust, að ef þessi till. verður samþ., þá er það skylda næsta þings, þegar við berum fram slíkar till., að samþ. þær engu siður en þessa.

Ég vildi aðeins taka þetta fram fyrir okkar hönd, vegna þess að við höfum ekki ráðizt í að bera fram till. um þetta eins og nú standa sakir.

Ég man ekki eftir því, að það sé fleira að þessu sinni. Aðrar till., sem ég er við riðinn, hafa verið ræddar hér af öðrum hv. þm.