29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

44. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Eins og sjá má á nál. 259, þá er n. ekki á einu máli um afgreiðslu þessa máls. Einn hv. nm. vill samþ. þetta frv. óbreytt, en hann er ekki hér viðstaddur til að gera grein fyrir sinni afstöðu í þessu máli. Hins vegar höfum við tveir í n., ég og hv. 9. landsk., ekki viljað ganga inn á að lögfesta frv., fyrr en sýnt er, að frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum nái fram að ganga á þinginu.

Það er ekki svo að skilja, að við höfum brugðið fæti algerlega fyrir þetta mál. En við teljum, að þetta mál og annað mál, sem er á ferð hér í þinginu, sem fjallar um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, séu svo skyld mál, að ekki sé hægt að gera þar upp á milli, nema að svo miklu leyti sem hitt frv., um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, er nú í fyrsta skipti á ferð sem löggjöf, en þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., er um umbætur á löggjöf, sem þegar er fyrir um húsmæðrafræðsluna í sveitunum. Þetta mál er gamalkunnugt hér í hv. þd., og þarf ég ekki að rekja gang þess hér. En ég verð að segja það frá mínu brjósti, að svo bezt getum við fylgt auknum framlögum til húsmæðrafræðslunnar í sveitum, að hæstv. Alþ. sýni fullkomlega lit á því að koma á löggjöf um og styðja á mjög svipaðan hátt húsmæðrafræðsluna í kaupstöðunum, því að þar sem svo örðugt hefur verið um framgang þessa máls fyrir kaupstaðina, viljum við tryggja okkur það, að hér verði nokkurs konar kaup kaups, þannig að við snúum bökum saman um það, að við styðjum þá, sem bera þetta mál fyrir brjósti fyrir sveitirnar, og að þeir hinir sömu styðji einnig okkur um að koma áfram löggjöf um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum.

Að svo komnu máli mun ég greiða þessu frv. atkv. til 3. umr. og sjá, hvað setur um gang hins málsins, sem ég gat um, og hraða þess við afgreiðslu í þinginu.