29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

44. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. 9. landsk. (ÁJ) hefur tekið fram nokkuð af því, sem ég vildi segja. Því til viðbótar vil ég þó segja það við hæstv. forsrh. — þ. e. a. s. ef hann má vera að að hlusta á það — út af því, sem hann sagði hér, að ég að sjálfsögðu legg mikið upp úr hans orðum um framgang frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, sem við berum fyrir brjósti. En ég vil segja, að það er ekki að ástæðulausu, að við höfum komið fram með þennan fyrirvara. Hæstv. ráðh. er það kunnugt, að á tveimur eða þremur þingum hefur málinu verið hreyft hér í hv. d., en það hefur hér litla áheyrn fengið. En sem betur fer, er viðhorfið til þessa máls nú orðið breytt, eins og ræða hæstv. ráðh. nú bar vott um. Þannig að telja má víst, að framgangur þess sé tryggður. En mér er alveg ókunnugt um afstöðu hv. form. menntmn. til þess máls, og hann hefur svo mikið vald sem form. n., að hann getur dregið málið á langinn, svo að það gæti tafið málið hér í hv. d. Nokkur ótti er hjá okkur þessum tveimur, sem skrifað höfum undir nál. með fyrirvara, um, að hv. form. menntmn. hafi ekki mikinn áhuga fyrir frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum.

Ég get svarað hv. 1. þm. Eyf. (BSt) því, að ég held, að það sé komið skýrt fram, hvort við þessir tveir þm. séum með eða móti málinu, sem hér liggur fyrir. Við erum með málinu. (BSt: Andinn er þá reiðubúinn). En ég vil ekki gera upp á milli þegnanna í þjóðfélaginu (ÁJ: Heyr!).

Svo vil ég að síðustu minnast þess, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, að það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt., að svipað framlag verði veitt fyrir húsmæðraskóla í kaupstöðum eins og slíka skóla í sveitum. Því væri hægt að koma inn í frv. í hv. Nd., svo að ekki þyrfti að hrekja það á milli d.