23.04.1941
Efri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 235 við 5. gr. þessa frv. Við 1. umr. málsins gerði ég grein fyrir því, sem fyrir mér vakti, og boðaði þá brtt. Ég legg til, að gerð verði sú breyt. á skipun nýbýlastjórnar, að í staðinn fyrir 2 menn, kosna hlutfallskosningu af landbn. Alþ., og einn, er ráðh. skipar, skuli stjórnin skipuð 3 mönnum, sem kosnir eru af þremur stærstu þingflokkunum. Ég tel það miklu réttlátari skipan á þessari stjórn heldur en gert er ráð fyrir í frv. Samkv. því mundu aðeins tveir flokkar þingsins hafa fulltrúa í nýbýlastjórn, en annar flokkurinn gæti haft tvo, vegna þess að sá ráðh., sem skipa skal þriðja manninn, mundi hafa hann úr sínum flokki, þó að flokksbróðir hans hefði komizt í stjórnina með hlutfallskosningu. En ég tel réttara, að þrír stærstu flokkar þingsins ættu þarna sinn manninn hver. Ég ætlast til með brtt., að landbrh. skipi formann stjórnarinnar og verður hann á hverjum tíma úr hans flokki. Er gert ráð fyrir, að hann hafi öll störf nýbýlastjórnar með höndum og verði framkvæmdastjóri hennar, en hinir nokkurs konar gæzlustjórar. Þetta eru í stuttu máli mín rök fyrir þessar í brtt., og er óþarfi að orðlengja þetta frekar.