08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Frsm. (Jón Pálmason) :

Þetta frv. um breyt. á 1. um byggingar- og landnámssjóð felur í sér, eins og menn hafa vafalaust veitt eftirtekt, 3 breytingar. Í fyrsta lagi að hækka framlag til sjóðsins úr 200 þús. kr. upp í 250 þús. kr. á ári.

Í öðru lagi að breyta ákvæðunum um endurbyggingu sveitabæja og hækka framlagið til þeirra um helming. Jafnframt því er gert ráð fyrir, að hámarkið á þeim styrk, sem veittur yrði til byggingar hvers íbúðarhúss, sé hækkað nokkuð frá því, sem áður var. Hámarkið á styrk og lánum til hvers íbúðarhúss í sveitum, er áður var 6 þús. kr., er skv. þessu frv. hækkað upp í 8 þús. kr., en landbn. leggur til, að þetta yrði hækkað upp í 9 þús. kr., sem samsvarar þeirri verðhækkun, sem nú er komin á. Þriðja breytingin, sem þetta frv. felur í sér, er um breyt. á nýbýlastjórninni. Henni hefur hingað til verið komið þannig fyrir, að það hefur verið nýbýlastjóri og þriggja manna nefnd, sem landbrh. hefur skipað. En skv. þessu frv. er ætlazt til þess, að nýbýlastjórnin verði skipuð þremur mönnum, formanni, sem er skipaður af landbrh. til fjögurra ára í senn, og tveimur meðstjórnendum, sem kosnir séu hlutfallskosningu af báðum landbn. Alþingis.

N. mælir með frv. með þeim breyt., að þetta hámark, sem ég gat um áðan, 8 þús. kr., verði fært upp í 9 þús. kr. Í öðru lagi, að það verði sett inn í síðustu gr. frv., að þessi 1. öðlist þegar gildi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. að svo stöddu.