06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég átti hér brtt. á þskj. 669, sem ég hafði ekki mælt neitt fyrir. Nú get ég stytt mál mitt, m. a. af þeirri ástæðu, að ég sé, að hv. fjvn. hefur tekið til greina að nokkru mínar óskir, þar sem hún hefur á brtt. 668,6 lagt til, að byggingarstyrkur til gagnfræðaskóla Reykjavíkur verði 50 þús. kr. á heimildagr. fjárl. Þó að þetta sé nokkru minna heldur en ég hef farið fram á, þá mun ég sætta mig við þessa breyt., í trausti þess, að hæstv. Alþ. samþ. þá brtt., sem fyrir liggur um þetta frá hv. fjvn. Sé ég því ekki ástæðu til að tala langt mál um nytsemi till., þar sem hv. fjvn. hefur viðurkennt hana með sinni brtt., sem ég hef greint.

Þar sem hæstv. atvmrh. er hér ekki við, skal ég láta niður falla að svara honum örfáum orðum, sem ég annars hefði viljað gera, út af þeim orðum, sem hann lét falla í sinni ræðu þ. 28. síðasta mán. En að hæstv. ráðh. fjarstöddum sé ég ekki, að þýði að svara honum.