25.04.1941
Efri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

122. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Eins og grg. ber með sér, er frv. þetta flutt samkv. beiðni félmrh., og er efni þess á þá leið, að auka þurfi framlög, sem ríkissjóði og bæjar- og sveitarsjóðum beri að leggja fram, sem dýrtíðinni nemur, til byggingarsjóðs og verkamannabústaða. Samkv. l., sem gilt hafa, hafa verið greiddar 2 kr. á hvern íbúa í kaupstað. Þessi till., sem hér er gerð, er í samræmi við gerðir Alþ. um byggingar- og landnámssjóð, þar sem hækkunin er í fyrsta lagi samkv. dýrtíðinni og þar að auki önnur framlög. Hins vegar er nú ekki hægt að byggja án þess að auka þessa sjóði samkv. dýrtíðinni, því að allur kostnaður hefur aukizt meira en sem nemur dýrtíðinni. Þar sem byggingarefni er nú lítt fáanlegt, eru ekki líkindi til þess, að byggt verði á næstu árum. En þrátt fyrir það er það almenn skoðun, að því meira þurfi að byggja, þegar möguleikar verða til þess, og er því mjög nauðsynlegt að efla þessa sjóði, til þess að hægt verði að grípa til þeirra, þegar byggingar geta hafizt.

Ég hef þá getið frv. með þessum fáu orðum. En ég skal geta þess, að hv. 2. þm. S.-M. er með fyrirvara. Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að hann geri grein fyrir sinni afstöðu. En meiri hl. n. er sammála um, að rétt sé að samþ. till. í samræmi við hliðstæðar till., sem hafa verið gerðar á Alþ.