25.04.1941
Efri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

122. mál, verkamannabústaðir

Magnús Gíslason:

Ég hef lagt þessu frv. lið. Ég veit, að það ástand hefur nú orðið til í landinu, að ekki er framkvæmanlegt að hefja neinar byggingar að svo stöddu, bæði vegna þess, að allt byggingarefni er nú óhæfilega dýrt, og eins vegna hins, að það er ófáanlegt eins og ástandið er. En þegar styrjöldinni er lokið, hvenær sem það verður, er nauðsynlegt, að hægt verði að byggja, bæði til sjávar og sveita. Það hefur að nokkru leyti verið séð fyrir þessu með ýmsum frv., t. d. með frv. um byggingar- og landnámssjóð. Ég álít, að nákvæmlega hið sama eigi að gilda um þetta mál, sem hér liggur fyrir, og að þessir sjóðir eigi að njóta sömu fríðinda.

Samkv. gildandi 1. er gert ráð fyrir, að lagðar séu fram 2 kr. fyrir hvern íbúa, eða um 120 þús. kr. til þessara sjóða. Þessir sjóðir eiga svo aftur að lána út fé til þeirra, sem ráðast í byggingar. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að ráðizt verði í neinar byggingar á þessu ári, og ef til vill ekki á næstu árum, en það er hins vegar mikils virði að hafa eitthvert fé handbært, þegar að því kemur, að hægt er að laga eitthvað fyrir sér.