25.04.1941
Efri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

122. mál, verkamannabústaðir

Ingvar Pálmason:

Eins og frsm. n. gat um, þá hef ég verið með fyrirvara á þann hátt, að til allshn. komu tilmæli frá hæstv. ráðh. um, að n. flytti frv. Ég fyrir mitt leyti vildi ekki skorast undan því, en hins vegar vildi ég áskilja mér rétt til þess að bera fram brtt. og til þess að vera á móti frv. Með þessari lagabreyt., sem hér er farið fram á, eru lagðar byrðar á herðar ríkissjóðs og bæjarsjóða, sem ég veit ekki til, að bæjarsjóðir hafi óskað eftir. Ég vil taka til dæmis það bæjarfélag, þar sem ég á heima, Norðfjörð. Þar er að vísu til byggingarsjóður, en hann hefur ekki verið notaður vegna þess, að þar er engin þörf fyrir byggingar. Ég sé enga ástæðu til þess að fara að leggja aukaskatt á þá kaupstaði, sem ekki þurfa nauðsynlega að byggja. Ég minntist á það í n., að rétt væri að senda frv. bæjarstj. Reykjavíkur til umsagnar, en það hefur ekki verið gert, og teldi ég eðlilegt, að það yrði gert milli umr. Ég vildi láta þetta koma fram við 1. umr., að öðru leyti mun ég lofa frv. til 2. umr. En eins og málið er undirbúið mun ég ekki geta fylgt því lengra, nema á því verði gerðar einhverjar breyt., bæði að því er snertir það atriði, sem hv. 1. þm. N.-M. minntist á, og þó sérstaklega hitt, að ég tel ekki nauðsynlegt, að þessi ákvæði gildi um allar bæjarstjórnir