23.05.1941
Efri deild: 66. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

122. mál, verkamannabústaðir

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. á þskj. 585. Ég skal játa, að réttara hefði verið að stíla brtt. við ákveðna gr. í 1. 1935, eins og allshn. hefur bent á og gert, í stað „gr. 1“, eins og gert er í till. minni, vegna þess að frv. þetta fjallar um breyt. á tvennum l. En væntanlega veldur það ekki misskilningi, þótt í till. minni standi „4. gr. l.“, því þar er vitanlega átt við 4.

gr. 1. nr. 3 frá 1935, um verkamannabústaði. Vil ég beina því til hæstv. forseta, hvort ekki mætti skoða þessi orð mín sem leiðréttingu, er tekin yrði til greina í prentun.

Efni brtt. er að færa niður vexti af lánum byggingarsjóðsins úr 5% í 4%.

Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er sú, að eins og alkunnugt er, hefur orðið allverulegt húsnæðisleysi í sumum bæjum upp á síðkastið, sérstaklega hér í Reykjavík og á Ísafirði.

Í Reykjavík er þetta svo alvarlegt, að 14. maí fengu margar fjölskyldur ekkert þak yfir höfuðið í venjulegum leiguíbúðum.

Þess vegna urðu yfirvöld bæjarins að ráðstafa mörgum fjölskyldum í franska spítalann, mörgum konum saman í eina stofu, en hóp af karlmönnum í aðrar.

Það er engum blöðum um það að fletta, að húsnæðisvandræðin eru orðin mjög alvarleg í Reykjavík, og má fremur búast við, að þau vaxi en minnki á næstunni.

Ég hef því rætt við byggingarfélag verkamanna, hvort ekki sé hægt að gera ráðstafanir til að bæta úr brýnustu þörfum í þessu efni, t. d. með því að koma upp nokkru af verkamannabústöðum í sumar. Forráðamenn félagsins telja þetta alls ekki útilokað og hafa þegar gert ráðstafanir um útvegun á efni, og rætt við félagsmenn um það, hvort þeir mundu vilja kaupa íbúðir nú, ef þær fengjust, þótt þær yrðu nokkru dýrari en áður. Hefur félagsstjórnin fengið jákvæð svör við þeim fyrirspurnum. En til þess að ýta undir menn og hvetja þá til að hefjast handa, hefur verið rætt um nauðsyn þess að lækka vexti og afborganir úr 5% í 4% p. a.

Ég hygg, að byggingarsjóður verkamanna sé svo vel stæður, bæði að tekjum og svo eins af því, að hann þarf ekki að verja háum upphæðum til vaxtamismunar af lánum sínum nú orðið, að hann sé þess vegna megnugur þess að lána fé til nýbygginga gegn 4% árlegum vöxtum og afborgunum. Og þegar þörfin er svo rík, er sjálfsagt að láta einskis ófreistað þessu til stuðnings. Till. mín á þskj. 585 er einn liðurinn í þessari viðleitni. Hún er flutt í samráði við hæstv. fjmrh. Vildi ég loks mega vænta þess, að hv. d. taki vel í þetta mál og samþykki till.