06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög

*Jóhann Jósefsson:

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. forsrh., sem kann að vera, að skipti ekki miklu máli, en ég held, að sé samt svo hæpin fullyrðing, að tæplega megi við henni taka sem algildri. Þetta var sú fullyrðing, að þjóðhöfðingjar, eða þeir, sem gegndu slíkum störfum, hefðu alls staðar aðsetur annars staðar en í höfuðborgum þeirra landa, sem þeir vinna fyrir. Ég verð að segja, að svo langt, sem mín þekking nær, sem ég skal játa, að er takmörkuð í þessu efni, þá þekki ég ekki til, að þetta sé svo sem hæstv. ráðh. vildi láta Alþ. skilja. Ég held, þvert á móti, að það sé siður meðal þeirra þjóða, að forsetar þeirra eða æðstu yfirmenn, hvort sem þeir bera forseta- eða konungsnafn, hafi höfuðaðsetur sitt í höfuðstöðum landanna. Hitt er svo aftur annað mál, að slíkir menn hafa oft undir fleiri en einn bústað. En þeir bústaðir þeirra, sem eru utan höfuðstaðanna, eru þá eins og t. d. sumardvalarstaðir, veiðihallir eða eitthvað þvílíkt. En eiginlegur dvalarstaður þjóðhöfðingja eða presidents er að minni hyggju venjulegast höfuðstaðurinn í viðkomandi landi. Þessar aths. vildi ég gera við ræðu hæstv. forsrh.

Hitt ætla ég ekki að fara að vekja neinar deilur um, — þær eru að vísu þegar vaktar í blöðunum —, hvort Bessastaðir séu það fyrirheitna landið, sem hin íslenzka þjóð eigi að velja sínum þjóðarforseta eða staðgengli konungs. Ég læt í bili það liggja á milli hluta, en vil hins vegar halda því fram, að það er mín skoðun, að dvalarstaður hins æðsta manns þjóðfélagsins sé bezt kominn í höfuðstað landsins.

Að því er snertir aths. hæstv. forsrh. um fjár1., þá skal ég ekki gera ágreining við hann um það, að mér þykir, satt að segja, eftir því, sem ræður manna hafa fallið hér, líta út fyrir, að afgreiðsla þessara fjárl. muni verða með nokkuð gálausum hætti. Það er kannske of sterkt orð að kveða svo að. En starsýnt hefur mér orðið á margar þessar háu brtt., sem fram hafa komið hér alveg á síðustu stundu; sem sumar bara skipta hundruðum þús. kr. Það er ekki verið að klípa neitt af því. Það er ekki sá yfir hv. þm. nú, þegar menn gátu rifizt hér út af lítilfjörlegum listamanna- eða skáldastyrk, sem skiptir kannske nokkrum hundruðum kr., eða jafnvel um . enn minni upphæðir til gamalla starfsmanna, sem skipta vanalega fáum hundruðum kr. Ég vissi ekki betur en að það stæði til, eða a. m. k. voru á uppsiglingu samtök um það innan þessara hv. flokka, sem styðja hæstv. ríkisstj., að hafa hér nokkurn hemil á og spyrna hér fæti við, og virtist mér sú vera stefnan við síðustu umr. fjárl. Hvað er nú að þessari þjóðstjórn? Getur hún ekki komið sér saman um neitt, sem er til þjóðþrifa?

Hæstv. ráðh. lét skína í gegn, að það væri mikil óánægja innan ríkisstj.; og ég sé móta fyrir því af þeim ræðum, sem hér hafa farið fram, og þeim brtt., sem enn er verið að ýta hér fram, að ef einhvern tíma hefur verið nokkur alvara í því hjá hæstv. ríkisstj. að reyna að hafa — einhvern hemil á taumlausum fjáraustri, þá verður ekki annað séð en að nú sé verið að fara í reiptog með málin. Mér þykir þetta ömurlegt viðhorf. Og ég spyr aftur: Hvað er að hjá þessum hæstv. herrum?