26.05.1941
Efri deild: 68. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

143. mál, sóknargjöld

Frsm. (Árni Jónsson) :

Herra forseti! Um þetta frv. er hið sama að segja og þau tvö, er síðast voru hér afgreidd: Það er flutt af hv. menntmn. Nd. að ósk dóms- og kirkjumrh., en undirbúið af biskupi samkv. áskorun sameiginlegs fundar sóknarnefnda, safnaðarfulltrúa og presta þjóðkirkjusafnaðanna í Reykjavík. Frv. er um breyt. á l. um sóknargjöld. Aðalbreyt. er sú, að prestsgjaldið, sem um ræðir í 1.–4. gr. l. um sóknargjöld frá 30. júlí 1919, falli niður. Ástæðan til þeirrar niðurfellingar er sú, að prestsgjaldið er ekki orðið annað en venjulegt gjald til ríkissjóðs, og þykir því ekki ástæða til að afla þessara sérstöku tekna með nefskatti fremur en annarra tekna ríkissjóðs. Fjármálaráðun. hefur og lýst yfir því, að það telji tekjur af þessu gjaldi tæplega þess virði, að það bæti upp fyrirhöfnina við innheimtu gjaldsins.

Þá er 7. gr. l. frá 1909 breytt þannig, að í stað orðanna „enda nemi framlög þau, er söfnuðurinn greiðir árlega til prests og kirkju, eigi minna en sem svarar 2.25 kr. fyrir hvern safnaðarlim, 15 ára eða eldri“ í síðari hl. 2. málsgr. komi orðin: enda nemi framlög þau, er söfnuðurinn greiðir árlega til kirkju, eigi minna en sem svarar því, er meðlimum hans ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar. Undanþegið þessu gjaldi er sömuleiðis allt rúmfast fólk 67 ára eða eldra.

Svo er það, að kirkjugjaldið skal nú miða við almanaksár, í stað þess, að áður var það miðað við fardagaár. — Loks er breyting á 10. gr. Í stað þessarar málsgr. í niðurlagi gr.: „Fyrir þá, sem eru á sveitarframfæri, getur húsráðandi krafizt endurgjalds úr sveitarsjóði“ komi orðin: fyrir gjaldskylda styrkþega greiðir hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóður sóknargjöld.

Ég held, að ég hafi þá talið aðalbreyt., sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og treysti svo því, að hv. d. láti það ganga áfram til 3. umr.