16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Stefán Stefánsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 367 ásamt hv. 7. landsk. Ég tók hana aftur til þessarar umr. samkv. ósk frsm., hv. þm. Borgf., en nú lýsir hann yfir, að landbn. hafi tekið afstöðu gegn till.

Ég gat þess við 2. umr., að það hefði verið gerð tilraun til þess áður á þingi, bæði 1938 og síðast í fyrra, að rétta nokkuð hlut þeirra, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessari veiki í Svarfaðardal. Ég gat þess, að veikin væri hjá 50–60 fjáreigendum í dalnum og breiddist óðfluga út, svo að enginn fengi við ráðið. Mér er óskiljanleg afstaða n. til þessarar veiki. Hv. frsm. sagði, að það væri svipað um hana og kýlapestina, en það er vitað, að það þekkir varla nokkur maður kýlapestina. Vil ég benda á, að búnaðarmálastjóri, hv. 2. þm. Skagf., og hv. þm. Ak., sem er dýralæknir, segja, að veikin sé varla til í landinu nú. En þessi veiki er svona útbreidd þarna og víðar. Ég vil og benda á, að garnaveikin, sem landbn, er að berjast við, er samkv. skýrslu, sem birt er í Morgunbl. í morgun, aðeins fundin á 5 bæjum á Austfjörðum. Og það á að taka þessa 5 bændur út úr, sem hafa misst hver kannske 4–6 kindur, og bæta þeim, en við þá bændur í Svarfaðardal, sem hafa misst hundruð fjár, vill landbn. ekki sjá í að nokkru, enda gengur það á móti því, sem hv. frsm. sagði við 2. umr. Þegar hv. þm. Ak. benti á, að ekki væri síður ástæða til að taka lungnapestina en þær, sem hér eru löggiltar, þá sagði hv. þm. Borgf., að það væri fundið meðal við þessari veiki. En samkv. þessu ætti hann að geta bent á, að það væri fundið meðal við riðuveikinni. En það er það, sem ekki er. Og svo óviðráðanleg sem hin veikin er, þá er þessi engu viðráðanlegri. Ég vil því vænta þess, að þingdeildin sjái sér fært að samþ. þessa till., hvað sem till. landbn. líður. Úr því að hv. form. fjvn. (PO) finnur sérstaka ástæðu til að ganga á móti þessari till., þá skora ég á hann, ef svo ólíklega fer, að þessi till. verður felld, að taka upp fjárveitingu til rannsóknar á þessari veiki. Það var borin fram till. 1938, og vorum við sömu till.-menn, þess efnis að taka upp 5 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni. Var henni vísað til fjvn. og sást ekki meir.