16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Stefán Stefánsson:

Ég verð að segja, að mér þykir nokkuð undarleg afstaða landbn. til þessa máls. Hv. 2. þm. Skagf., sem hér talaði síðast, sagði, að ekkert fár væri á ferðinni í Svarfaðardal. En rétt á eftir sagði hann, að þessi riðuveiki væri mjög hættuleg og mjög útbreidd í Svarfaðardal. Hann taldi um fár að ræða þar, sem garnaveikin var, enda þótt upplýst væri af skoðunarmönnum, að hún væri aðeins á 5 bæjum á Austurlandi. Annars virðist mér höfuðástæðan gegn brtt., að þessi veiki sé væntanlega ekki innflutt með karakúlfé. Annars veit. enginn um þetta með vissu, þótt allar líkur bendi í þá átt. En ég sé ekki annað en það sé hlutverk Alþingis að berjast gegn öllum fjárpestum, enda þótt þær séu ekki nýlega innfluttar með karakúlfé. Það er engin vissa fyrir því, að það sé skylt að gera gangskör að því að útrýma öðrum fjárpestum. Mér finnst afstaða n. í þessu máli undarleg, þar sem hún játar þó, að veikin sé hættuleg og hvergi eins útbreidd eins og í Svarfaðardal. Ég vil þó þakka þær undirtektir, sem till. fékk hjá hv. fjvn. að því er snertir fjárframlög til rannsóknar á þessari veiki.