06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

1. mál, fjárlög

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég get verið stuttorður. Ég vildi helzt, að umr. yrði lokið á þessum fundi. Ég skal ekki heldur gefa tilefni til að lengja þær, enda hafa hv. frsm. fjvn. og einnig hv. þm. V.-Húnv. tekið af mér ómakið, með því að lýsa, hvernig komið væri afgreiðslu fjárlagafrv. að þessu sinni. Þeir lýstu því svo skilmerkilega, að hv. þm. eru ekki í neinum vafa um, að fullt tilefni er til þess að gæta sem mestrar varúðar við afgreiðslu þessara mála. Ég get tekið undir það, sem komið hefur fram í ræðum einstakra hv. þm., að ég legg á móti frekari aukningu útgjalda heldur en fjvn. hefur lagt til, svo að nokkru nemi.

Ég vil, út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. kastaði fram, að vissu leyti í spurnarformi, þó að hann hafi beinlínis ekki búizt við svari, segja nokkur orð. Hann sagði, að sér þætti fróðlegt að vita, hvernig takast mætti að standa við fjárl. fyrir 1942, ef eitthvað verulega brygðist um tekjuvon og útgjöldin, bæði í fjárl. og utan þeirra, yrðu svo há sem allar líkur eru til. Ég býst við, að undir þeim kringumstæðum verði ríkisstj. að komast hjá því að greiða þau gjöld, sem henni er ætlað, hvort heldur að þau eru ákveðin í l. eða fjárl. Önnur leið er ekki til. Hvernig það má takast, skal ég ekki segja um, og ég vil ekki á nokkurn hátt draga úr þeirri ábyrgð, sem á hv. þm. hvílir við afgreiðslu fjárl. En það liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að fara öðruvísi að, ef í harðbakkann slær, eins og hv. þm. V.-Húnv. virtist gera ráð fyrir.

Fyrirspurn kom fram frá hv. 2. þm. Skagf. um það, hvernig fara skal um Búnaðarfélagið. Ég býst við því, að ríkisstj. sjái því farborða á næsta ári í samræmi við það, sem verið hefur að undanförnu. Annars er það undir hæstv. forsrh. komið, sem hefur þessi mál með höndum.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. Ísaf. um framlög til húsmæðraskóla, þá hef ég skilið það svo, að l. þau um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, sem borin voru fram á þessu þingi að tilhlutun ríkisstj., ættu að framkvæmast á þessu ári. Þó að það sé ekki beinlínis tekið fram í 14. gr. fjárl., þá er samkv. 1. sjálfum ætlazt til, að þau komi strax til framkvæmda, og með þessari lagasetningu skilst mér, að ríkisstj. sé gefin full heimild til að láta þau koma til framkvæmda nú þegar.

Ég sé ekki ástæðu til, eins og ég sagði í upphafi, að orðlengja meira um afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þeir bera allir jafna ábyrgð á afgreiðslu fjárl., ekki sízt þegar málum er svo háttað, að fjmrh: er ekki skipaður af neinum ákveðnum flokki og hefur því ekki þá aðstöðu á þingi, sem flokksráðherra hefur, sem hefur óskiptan meiri hl. að baki sínu. Það hvílir því meiri ábyrgið á hverjum einstökum þm. um það, hversu fer nú um afgreiðslu fjárl.

Ég vil svo mælast til þess við hæstv. forseta, að atkvgr. verði frestað til næstk. mánudags.