05.06.1941
Neðri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Guðmundsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af brtt. á þskj. 649, sem ég vil minnast á, enda þótt ég hafi mælt með henni hér við umr. síðast, þegar þetta mál var til umr., og vil ég því stuttlega minnast á efni till. nú. Hún er um það, að hið opinbera greiði kostnað, sem af því leiðir, ef mæðiveikinefnd eða sauðfjársjúkdómanefnd fyrirskipar bifreiðaflutning á sauðfé af sýktum svæðum yfir ósýkt svæði. Það er í einstaka tilfellum, sem þetta er talið nauðsynlegt, að banna fjárrekstra frá sýktum svæðum yfir ósýkt, og þá verður að flytja sauðféð á bifreiðum, og er það vitanlega þó nokkur kostnaður fyrir þá bændur, sem þar eiga í hlut. Það virðist vera mjög eðlilegt, að hið opinbera tæki á sig þennan kostnað og hann sé greiddur af því fé, sem ætlað er til sauðfjársjúkdómavarna. Hér er um að ræða kostnað, sem ákaflega auðvelt er að sjá, hver er, og ég hygg ekki ákaflega mikill í heild, en fyrir einstakling getur orðið erfitt að borga þann kostnað, sem af þessum flutningi getur leitt. Og virðist þetta því vera mjög sanngjarnt mál.