06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög

*Jóhann Jósefsson:

Hv. frsm. fjvn. fann ástæðu til að tala um, að sú hv. n. sýndi mínu kjördæmi þá sanngirni að hækka framlag til Vestmannaeyjahafnar úr 30 þús. kr. í 50 þús. kr., eftir minni till. að vísu, en meðmælum vitamálastjóra. Þetta virðist í hans augum eiga að vera nóg til þess að stinga upp í þann þm., að n. sýnir þessa sanngirni. Og hækkun framlagsins um 20 þús. kr. á að .vera nóg til þess, að ég líti ekki krítískum augum á fjárlagaafgreiðslu Alþingis. Ég biðst undan svona löguðum getsökum í minn garð. Þess er og að gæta, að þegar það er athugað, hvort veitt er til annarra hafna, eru Vestmannaeyjar með mjög litlar upphæðir, og hef ég hingað til orðið að láta mér það lynda. Ég tala nú ekki um, ef teknar eru með ábyrgðarheimildir. — N. hefur að vísu sýnt lítils háttar sanngirni, en ekki þá ofrausn, að ég fyrir þær sakir teldi mig ekki sjá neinn ljóð á hennar né annarra manna ráði. Og ég tel mig hafa lög að mæla, er ég segi, að mér hafi orðið starsýnt á ýmsar till., sem fram hafa komið við þessa umr. Ég var ekki að finna að till. n.; heldur að till. einstakra þm. í hækkunarátt, sem allt í einu skjóta upp höfði. Ég get nefnt 3–4 dæmi. Hér kemur ný till. á þskj. 669 um 100 þús. kr. til gagnfræðaskólans í Reykjavík. Á þskj. 654 flytja tveir flokksbræður hv. frsm. till. um að hækka framlag til framkvæmda á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts úr 70000 kr. í 150000 kr. Á þskj. 668 eru líka tveir flokksmenn hv. frsm. með till. um að hækka fjárveitingu til nýbýla úr 250 þús. kr. í 500 þús. kr. Áður eru þó þessir sömu menn búnir að gera till. um að hækka till. úr 155 þús. kr. í 250 þús., en nú bæta þeir aðeins ¼ millj. kr. við. Enn flytja tveir framsóknarmenn till. á þskj. 622, nýr liður: til tilrauna í jarðrækt 40 þús. kr. — Svona mætti lengi telja.

Ég verð að biðja hv. frsm. að beita geiri sínum í aðrar áttir en til mín, þegar hann talar um frekju þm. í kröfum til fjárframlaga.

Að því er snertir aths. hæstv. forsrh. verð ég að segja, að hún kemur mér undarlega fyrir sjónir. Hann kastar því fram, að ég sé með stærstu útgjaldatill. á fjárl., vegna þess að ég ásamt öðrum flyt till, um það, að ríkisstj. heimilist að kaupa hlutabréf í Útvegsbankanum af þeim mönnum, sem á sínum tíma voru píndir til að leggja fram helming af innstæðu sinni í Íslandsbanka til kaupa á hlutabréfum Útvegsbankans. Þetta er hrein og bein vitleysa. Ef ég vissi ekki, að ráðherra hefði ekki kynnt sér málið, mætti bera honum það á brýn, að hann væri hér með tal, sem ekki sæmdi manni í hans stöðu.

Í fyrsta lagi er hér um heimild að ræða, sem ekki er ákveðið, hvenær skuli nota. Í öðru lagi er tilskilið, að hlutaféð, sem um er að ræða, skuli metið. Eftir upplýsingum bankans hef ég sagt, að þetta hlutafé hafi upphaflega verið 1350000 kr., en það dettur engum í hug, að við mat komi þessi tala fram.

Ég vil líka benda á, að ríkisstj. gæti gert

þetta á þann hátt, að það væri mjög létt fyrir ríkissjóð, t. d. með því að skipta á hlutabréfunum og ríkisskuldabréfum, sem væru veðhæf og ættu að verða arðbær eign fyrir þá hlutabréfaeigendur, sem nú sitja með einskisverð bréf. — Ég neita þeirri kórvillu hæstv. forsrh., að hér sé um fjárframlög að ræða, er nemi 1350000 kr.

Ég segi ekki, að ég vilji ekki heldur undanskilja þá till. um 500 þús. kr. til byggingar sjómannaskóla. Hún vakti nokkra undrun hjá mér, að því leyti, að mér virtist sú upphæð, sem búið var að tala um í Ed. til byggingar hans, 300 þús. kr., hafi ekki verið viðunandi eins og á stóð. Þessi tala, sem ég nefndi hér, tel ég að réttlæti það og enginn þurfi að stökkva upp á nef sér út af því, þó að hv. þm. hafi það á orðið og standi nokkuð undrandi gagnvart þeim háu tölum, sem hér er kastað fram, þegar þess er gætt, hvað miklum tíma er oft varið hér á þingi til að rífast út af mjög smávægilegum atriðum, sem menn álíta þó, að á engan hátt geti komið til mála, því að — þau hækki útgjöld fjárlaganna, þó að hægt sé að sýna fram á bæði sanngirni og nauðsyn á slíkum minni fjárveitingum.

Hv. 1. þm. N.-M. var þarna eitthvað að taka fram í og tala um, að þessi fjárveiting til tilrauna mætti á engan hátt falla niður. Það getur vel verið, að svo sé, en ég vil benda þessum hv. þm. á, að það hefði sennilega betur verið daufheyrzt við svipuðum till., sem hann hefur borið fram á sviði landbúnaðarins, utan þings og innan.