18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Það þýðir ekki mikið að hafa langar umr. um þetta frv., þótt hér sé um mikið mál að ræða, enda er búið að flæma alla hv. þm. út úr d. með lagaskýrsluflækjum, sem flestum stendur á sama um og enginn hefur áhuga fyrir. Samt verður að reyna að koma málinu eitthvað áfram.

Frv. þetta er samið og samþ. af búnaðarþinginu og sent Alþ. til flutnings. Landbn. flytur það óbreytt eins og það kom frá búnaðarþinginu, en áskilur sér rétt til að gera á því smábreytingar og leggur til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir, í aðalatriðum. Frv. er í 5 köflum, en ekki nema tveim aðalefnisköflum. Fyrsti kaflinn er um varnarlínur, sem leggja skuli og við haldið til varnar útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma. Hinir kaflarnir eru að mestu leyti ákvæði um útrýmingu búfjársjúkdóma, fjárskipti og bætur af hálfu ríkisstj. til þeirra bænda, sem að þessum fjárskiptum standa.

Ég vil geta þess, að þó að allar varnarlínurnar séu taldar upp í l., eru þær ekki allar nýjar, og sumar að miklu leyti lagðar. Skal ég skýra þetta nánar.

1. línan: Við Þjórsá, til að mestu leyti.

2. línan: Við Ölfusá, Hvítá og Jökulfallið, ekki til.

3. línan: Yfir Reykjanesið hjá Straumi til Herdísarvíkur, er til.

4. línan: Frá Hvalfirði í Langjökul, hún er ekki til nú, en talið nauðsynlegt að setja hana upp strax til að bægja frá Borgarfirði þeirri hættu, sem honum stafar af garnaveiki í Árnessýslu.

5. línan: Við Hvítá í Borgarfirði, upp í Stafholtstungur og þaðan milli Hvítár og Norðurár norður í varnarlínu 11, ekki til.

6. línan: Yfir Snæfellsnes milli Skógarness og Álftafjarðar, er til.

7. línan : Úr Hvammsfirði í Hrútafjörð, er til. 8. línan: Úr Gilsfirði í Bitrufjörð, er til.

9. línan: Úr Kollafirði í Ísafjörð, er til.

10. línan: úr Þorskafirði í Steingrímsfjörð, er til.

11. línan : Úr Hrútafjarðar-Hvammsfjarðargirðingu í Langjökul, ekki til.

12. línan: Með Blöndu í Kjalargirðingu eða Hofsjökul, er ekki til.

13. línan : Með Héraðsvötnum og Jökulsá eystri í Hofsjökul, til að mestu leyti.

14. línan: Með Skjálfandafljóti, er ekki til.

15. línan: Með Jökulsá á Fjöllum,; sjálfgerð. 16. línan : Frá sjó við Kópasker í Loka við Þistilfjörð, er ekki til nú, en ákveðið að leggja hana í sumar, hvort sem það verður lögákveðið eða ekki.

17. línan: Úr Jökulsá norðan Hólsfjalla í Miðfjörð, er ekki til.

18. línan: Með Jökulsá á Brú, er sjálfgerð.

19. línan: Frá Eskifirði um Eskifjarðarheiði með Eyvindará í Lagarfljót við brúna, og úr botni Lagarfljóts með Gilsá um Fossárdal í Berufjörð, er ekki til.

20. línan: Úr Hornafjarðarfljóti í Vatnajökul, er ekki til.

21. línan: Með Jökulsá á Breiðamerkursandi, er sjálfgerð.

22. línan: Yfir Kjöl milli Hofsjökuls og Langjökuls, er til að mestu leyti.

23: línan : Úr girðingu undir tölulið 19, sem næst sýslumörkum milli Austur-Skaftafellssýslu og Suður- og Norður-Múlasýslu til jökla, er ekki til.

Þessar línur, sem hér hafa verið nefndar eða ákveðnar, voru samþ. með öllum shlj. atkv. á nýafstöðnu búnaðarþingi, og var talið nauðsynlegt, að línum þeim, sem enn er ókomið upp, verið komið upp á næstunni, en það er þó vitanlega mismikil þörf á að koma þeim upp.

En ég skal geta þess, að þó að nokkur átök eða deilur hafi verið á búnaðarþinginu um síðasta kafla frv., um hversu mikla áherzlu skyldi leggja á niðurskurðinn, þá voru allir sammála um það, að nauðsynlegt væri að koma þessum línum upp til varnar gegn útbreiðslu veikinnar.

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um útbreiðslu þessara sjúkdóma. Landbn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og þessi löggjöf fjallar um að reyna að sporna við útbreiðslu þeirra.

Þá er það fyrst og fremst mæðiveikin, sem hefur lagt undir sig mikinn hluta Árnessýslu og alla Gullbringu- og Kjósarsýslu. Enn fremur mikið af Snæfellsnes- og Dalasýslu, A.-Barðastrandarsýslu, Húnavatnssýslu og nokkuð af Skagafirði.

Það hefur tekið nú um 2 ár að stöðva frekari útbreiðslu veikinnar út fyrir þessi takmörk, og hefur tekizt að halda henni í skefjum, og er von um það, að með þessum girðingum takist að stöðva veikina þarna, en samt sem áður er engin vissa fyrir því.

Í þessu frv. er engu slegið föstu, en hins vegar er gefin heimild til þess, að fjárskipti geti farið fram á einstaka svæðum, ef þeim ákvæðum er hlýtt, sem um það eru sett. Yfirleitt er litið þannig á þetta mál, að vel geti komið til mála að byrja á niðurskurði á veikindasvæðinu, og eru allir sammála um það, að ef að niðurskurði yrði horfið, væri sjálfsagt að byrja á því að þrengja þetta pestarsvæði smátt og smátt. En hins vegar býst ég við, að óhjákvæmilegt verði að taka til þess mörg ár. En í sambandi við þetta eru svo miklir erfiðleikar, að út í það er alls ekki leggjandi. Það má segja, að nú sé sérstaklega mikill skaði að því að hverfa að niðurskurði í stórum stíl, vegna þess hversu framkvæmdasmátt þetta er, sem væri mjög ískyggilegt nú á þessum stríðstímum. Þess vegna má búast við, að það tæki mjög langan tíma, ef að niðurskurði yrði horfið. Hins vegar þótti samt sem áður rétt að gefa heimild til þess, svo að farið yrði að vinna að þessu. En einmitt vegna þess, að þetta tekur langan tíma, er ekki hægt að hverfa frá því ráði að veita styrk þeim héruðum, þar sem veikin geisar og ástæðurnar eru verri til þess að halda búskapnum við.

Sumir hafa mikla trú á því, að finna megi fjárstofna á þessum svæðum, sem hefðu það sterka mótstöðu, að takast muni, með því að drepa úr þessum stofnum, að koma upp fjárkynjum, sem stæðu af sér mæðiveikina. Halldór Pálsson ráðunautur hefur rannsakað þetta mál að undanförnu og fært fram rök fyrir því. Þannig mætti halda uppi og herða þennan stofn, en gefa þó að öðru leyti heimild til þess að þrengja þetta svæði og skera niður. Það getur vel verið, að þegar búið er að þrengja þetta svæði nokkuð, þá væri nokkurn veginn tryggt, að komið væri svo langt, að ekki þyrfti að hverfa að fullum niðurskurði. En þetta liggur allt fyrir til tilrauna, og þetta frv. gefur heimild til þess, að þær tilraunir verði gerðar.

Þá ætla ég nokkuð að víkja máli mínu að annarri tegund þessara sjúkdóma. Það er garnaveikin, sem ekki hefur náð sömu útbreiðslu og mæðiveikin, en er samt mjög skæð. Hún er nú t. d. í Árnessýslu, Hreppunum, Skeiðum og nokkuð í Flóanum. Einnig nokkuð í Skagafirði, en þar hefur verið reynt að útrýma henni með því að drepa niður sjúkt fé, þar sem hún hefur gengið. Það eru líka miklar líkur fyrir því, að þar, sem veikin er ekki þeim mun útbreiddari, megi takast að ráða niðurlögum hennar með prófun, sem sérfræðingar hafa haft til rannsóknar, sem er þannig, að skorið er niður allt það sjúka fé, sem kemur í ljós við þessar prófanir. Mér er sagt, að nú standi yfir að fullkomna þessa sjúkdómsprófun þannig, að líkur séu fyrir því, að hún geti orðið enn þá öruggari en hún hefur reynzt á undanförnum árum.

Þá er þessi veiki mjög útbreidd í tungunni milli Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú. Þarna er hún langútbreiddust og hættulegust, og mestar líkur eru fyrir því, að niðurlögum hennar verði ekki ráðið nema með almennum niðurskurði og fjárskiptum.

Auk þess er þessi veiki komin í Múlasýslurnar, á Velli, í Eiðaþinghá, um Reyðarfjörð, Hróarstungu, Breiðdalsvík, Stöðvarfjörð og jafnvel Berufjörð. En þar er hún tiltölulega lítið útbreidd enn þá, og eru miklar líkur fyrir því, að hægt verði að útrýma henni með litlum niðurskurði. En til þess að hægt sé að stöðva hana og útrýma er nauðsynlegt að koma upp varnarlínum á þessum stöðum.

Þá ætla ég að nefna einn sjúkdóm, sem menn hafa veitt athygli á síðari árum. Það er hin svokallaða þingeyska veiki, sem hefur verið í Þingeyjarsýslunum. Þessari veiki svipar mjög til mæðiveikinnar, en er þó allt annar sjúkdómur og er af fræðimönnum talinn miklu verri heldur en mæðiveikin, því þar sem hún leggst á stofnana, drepur hún þá til fulls, en mæðiveikin skilur þó alltaf eftir nokkur %. Þetta er hitaveiki, sem verkar þannig, að féð drepst. Af því þessi veiki er á tiltölulega litlu svæði, er nú verið að reyna að afmá hana í Þingeyjarsýslunum, og gerðar hafa verið ráðstafanir til að koma upp girðingum nú í sumar og ráða niðurlögum hennar til fulls.

Þetta eru þær fjárpestir, sem hafa reynzt ískyggilegastar og verið er að glíma við nú. Fyrst og fremst af þeim mönnum, sem búskap stunda á þessum svæðum, og einnig af ríkinu með rannsóknum og girðingum til að hefta útbreiðslu þeirra.

Ég get aðeins minnzt á eina veiki enn þá, sem er á nokkrum stöðum, en er ekki nærri því eins hættuleg og hinar. Það er kýlapestin. Það er heldur ekki vissa fyrir því, að þetta sé ný veiki, og líkur fyrir því, að hægara verði að ráða niðurlögum hennar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að rekja þetta mál meir. Þeir, sem kynnu að hafa áhuga fyrir því, geta farið í gegnum frv. og kynnt sér það. En ég vil geta þess, að mesta áherzlan er lögð á það, að kaflinn um girðingarnar verði að lögum. Hitt teljum við einnig rétt, að á skæðustu svæðunum verði veitt heimild til fjárskipta, eins og gert er ráð fyrir í 2. kafla frv. Enn fremur teljum við sjálfsagt, að hægt verði farið á stað með þennan niðurskurð.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu.