06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Helgi Jónasson:

Mér hefur; sannast bezt að segja, alltaf virzt mæðiveikin. vera nokkuð einráð í sínum störfum, og virðist mér þó, að með þessu frv. sé eigi úr því dregið.

Vegna þess að svo lítur út, að með þessu frv. verði sýslufélögunum bundinn stór fjárhagslegur baggi, þá vil ég mjög ákveðið leggja til, að frv. verði sent sýslunefndunum til umsagnar. Mér skilst, að þær girðingar, sem hér er gert ráð fyrir að setja, eigi að vera til frambúðar. Nú veit ég það t. d. með girðinguna fram með Þjórsá, að hún er á þeim stað, að hún tekur stórar spildur af afréttunum. Þetta hefur verið látið afskiptalaust vegna þeirrar nauðsynjar, sem þessar girðingar hafa verið taldar stafa af, á meðan varnirnar stæðu. En ef við losnum við mæðiveikina og girðingarnar yrðu látnar standa áfram, eins og mér skilst vera gert ráð fyrir, þá veit ég, að ýmsir mundu verða óánægðir. Ég get því ekki fylgt þessu frv. að svo komnu máli. Mér þykir frv. að ýmsu leyti athugavert og vildi mjög mælast til, að það yrði athugað betur.