06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Pétur Ottesen:

Það kemur mjög greinilega í ljós hér nú, að það er að verða stefnubreyting í þessu máli hér á Alþ. Hingað til hefur verið gott samkomulag um að reyna að berjast gegn því, að mæðiveikin, sem búin er að leggja fjárstofn manna í rústir víðs vegar á landinu, breiddist út til þeirra héraða, sem enn eru ósýkt. Nú ber svo til, að fulltrúar þeirra héraða, sem verið er að leggja fram fé til að verja, rísa hér á fætur og mótmæla því, að reynt sé að verjast því, að sauðfjársjúkdómar berist til þeirra. Þetta stafar af því, að það má ekki koma fyrir, að nokkur eyrir af kostnaðinum lendi á þeirra héruðum. Þetta eru ekki einustu andmælin, sem fram hafa komið, heldur hefur komið fram brtt. við annað frv. hér á Alþ. um að losa héruðin við lítinn hluta af kostnaðinum við mæðiveikina. Þetta virðist mér vera harla einkennilegt. Ég skil ekki, að fulltrúar þessara héraða skuli vera haldnir þeirri blindu, að þeir sjái ekki muninn á aðstöðu þeirra manna, sem hafa fjárstofn sinn óskertan, og hinna, sem hafa hann stórum rýrðan eða eru að mestu sauðlausir orðnir og verða þó að taka á sig mikinn meiri hluta þess kostnaðar, sem leiðir af ráðstöfunum, er hinir njóta ekki síður gagns af. Eina vörnin eru girðingarnar, og hafa þær reynzt björg þeirra landshluta, sem enn eru ósýktir. Og nú sýna fulltrúar þaðan svo óskiljanlega og blygðunarlausa síngirni að færast undan að taka sinn þátt í kostnaðinum. Ef það er að verða ofan á í þinginu að sleppa öllum vörnum, hvar er þá hvötin til að halda við vörnunum á kostnað þeirra, sem búnir eru að fá sjúkdómana í fé sitt? Hvaða hvöt hafa þeir bændur til að taka á sig nýjar byrðar, ef menn, sem ekki hafa orðið fyrir ógæfunni, telja þær einskis virði? Þó að ég vilji ekki taka fram fyrir hendur á hv. frsm., held ég, að landbn. hafi ekkert með það að gera að taka frv. til nýrrar athugunar nú. Hv. þd. verður að skera úr þessu. En það er alveg ný braut, sem komið er á, ef menn vilja nú afgreiða málið með rökst. dagskrá. Þá horfir þetta allt öðruvísi við á eftir.

Auðvitað er ekki átt við það, að þetta skuli vera neinar eilífðargirðingar, nema þær, sem komið geta að gagni við hagnýting lands þess, er þær liggja um. Að öðru leyti verða þær rifnar, Þegar þeirra er ekki þörf lengur.

Alltaf þýtur eins og vant er í þeim skjá, þar sem er hv. þm. Ak. (SEH) með fjárpestavísdóm sinn. En af því að orð hans stangast algerlega við reynsluna, verður nú ekki tekið mark á þeim heldur en fyrr, þau hafa engan hljómgrunn fundið. Það kynni að vera huggun fyrir hann, ef landið gæti allt sokkið í þá fordæmingu, sem hin sýktu héruð þjást nú undir.