06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Jón Ívarsson:

Í þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, tók ég fram, hver nauðsyn væri að stemma stigu fyrir fjárpestunum. Þess vegna þurfa hv. þm. ekki að brigzla mér um mótspyrnu gegn neinum þeim aðgerðum, sem forsjá fylgir í þessum málum. Ég tel vafasamt, að hægt sé að hrinda þeim nokkuð áleiðis í sumar, þar sem girðingarefni mun vanta. Þess vegna hygg ég, að tíminn sé nógur til að vita áður vilja fjáreigenda og sýslunefndanna. Í frv. eru svo þýðingarmikil nýmæli um girðingarhólf og um samþykktir, sem fjáreigendur geta sett, og um fjárskipti o. s. frv., að ég tel nauðsyn að nota þetta ár til að kynna nýjungarnar og vinna þeim fylgi, svo og að undirbúa framkvæmdir. Það mundi vera málinu til hins mesta gagns eins og á stendur.

Það tjáir ekki að gera lítið úr þeim fjárhagsbyrðum, sem frv. leggur á ýmsar sýslur. Viðhald girðinganna eitt getur verið svo erfitt, að leggja þurfi árlega girðingar á sumum stöðum, eins og þar, sem stór vatnsföll valda stórskemmdum á þeim máske hvað eftir annað. —

Ég vil ekki setja fót fyrir frv. við þessa umr., en ég vil endurtaka þá ósk mína við hv. landbn., að hún hugsi sig um það, hvort ekki sé rétt að leita álits sýslunefnda um málið.