14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. á hér brtt. við þetta frv., og hefur það verið vilji n. að reyna að laga sig sem mest hún gæti eftir þeim skoðunum og bendingum, sem fram komu hjá hv. þdm., og er þessi brtt. í sambandi við brtt., sem fram kom hjá hv. þm. og í samræmi við samkomulag við þá.

Ég vil þá fyrst minnast á brtt. á þskj. 500, frá landbn., og geta þess, að 1. og 3. breyt. er ekki efnisbreyt., heldur málsbætur á frv., því að það er vitanlega réttara og hið eina rétta mál að segja „til varnar gegn útbreiðslu“, en ekki „til varnar útbreiðslu“.

Þá er sömuleiðis á því þskj. brtt. við 17. lið í 1. gr. frv., sem í frv. er orðaður þannig: „Úr Jökulsá norðan Hólsfjalla í Miðfjörð“. Hv. þm. N.-Þ. hefur borið fram brtt. við þann lið, sem hann vildi láta vera þannig : „Úr Jökulsá sunnan Hólsfjalla í Miðfjörð.“ Það getur orkað tvímælis, hvort réttara muni vera að leggja girðingarnar sunnan eða norðan Hólsfjalla, og skal ég ekki fara út í það hér. Þess vegna leggur n. til að sleppa ákvörðunum um það, hvort leggja skuli girðingarnar sunnan eða norðan Hólsfjalla, og orða það svo: Úr Jökulsá í Miðfjörð. Vænti ég, að hv. þm. geti gengið inn á þá till.

Þá er brtt. á þskj. 459 við 2. gr. 22. lið, að breyta ofurlítið línu girðingarinnar, og er það sumpart vegna þess, að með þeirri línu, sem lýst er í brtt. landbn., mátti ná sama árangri með 20 km skemmri girðingu, en að nokkru leyti til þess að koma til móts við till. hv. þm. Árn. á þskj. 402. Vænti ég, að hv. flm. þeirrar till. fallist á að taka hana aftur.

Þá er brtt. á þskj. 475, við 4, gr., um að 1. málsl. orðist svo : „Meðan þörf er girðinga þeirra, er um ræðir í 2. gr., til varnar gegn fjársamgöngum í því skyni að hefta útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, skal viðhald og endurbygging girðinganna greitt að 2/3 úr ríkissjóði og 1/3 úr hlutaðeigandi sýslusjóðum“. — Ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því, að misprentazt hefur „sveitarsjóðum“ í stað „sýslusjóðum“ í lok brtt. — Þessi brtt. er flutt vegna þess, að sú skoðun hefur komið í ljós hjá sumum þm., að hér væri um eilífðargirðingar að ræða, sem skylt væri að halda alltaf við, og þótti þetta því þung kvöð á sýslusjóðunum.

Yfirleitt hefur n. viljað ganga sem lengst til móts við vilja þm., en þó svo, að frv. missti ekki marks um tilgang sinn. Vænti ég, að hv. deild samþ. till. n.