14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Gísli Guðmundsson:

Ég hafði flutt brtt. á þskj. 427 við 2. gr. frv., 17. lið, þar sem ræðir um girðingu úr Jökulsá norðan Hólsfjalla í Miðfjörð, að í stað “norðan Hólsfjalla“ komi „sunnan Hólsfjalla“, þannig að Hólsfjallasveitin kæmi inn í sveig milli Austurlandsins og Jökulsár á Fjöllum. Væri það mjög eðlilegt, því að í Hólsfjallasveitinni er engin garnaveiki.

Landbn. hefur nú borið fram brtt. um, að girðingin skuli ekki nánar takmörkuð í frv. en frá Jökulsá í Miðfjörð. Get ég eftir atvikum sætt mig við, að liðurinn verði orðaður þannig, og verði þá girðingin ákveðin eftir samkomulagi síðar. — Tek ég því brtt. mína aftur.