14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Helgi Jónasson:

Við fyrri hluta þessarar umr. hreyfði ég því, að þessu frv. yrði vísað heim í héruð til athugunar viðkomandi sýslunefnda, þar sem með samþykkt frv. yrði lögð mjög þung kvöð á viðkomandi sýslur.

Það hefur verið sagt, að ég væri andvígur öllum framkvæmdum, sem gerðar hafa verið til mæðiveikivarna. — Þetta er misskilningur, ég hef ekki talið það eftir, sem gert hefur verið til varnar þessum vágesti, en þegar nú á að ráðast í nýjar stórfelldar framkvæmdir, sem líka lenda á sýslufélögunum að verulegum hluta, virðist mér ástæða til að staldra við og stinga við fæti og gefa hlutaðeigandi sýslufélögum tækifæri til að átta sig á þessu máli. Nú er það líka svo, að þetta frv. er ekki samið af mæðiveikinefnd, heldur mun það samið af 9 manna nefnd á búnaðarþingi. Að vísu var frv. sent mæðiveikinefnd, en ekki til álitsgerðar, og hafa 2 menn úr nefndinni, sem ég hef átt tal við, látið svo um mælt, að þeim fyndist frv. alllosaralegt. — Ég get því á engan hátt séð, að neinn skaði sé skeður, þótt frv. sé vísað heim í héruð til athugunar, þegar þess er jafnframt gætt, að efni til girðinganna er ekki fyrir hendi. Frestun málsins í eitt ár gæti því ekki sakað, og yrði það lagt fyrir næsta þing, að fengnu áliti sýslufélaganna.

Ég hef því ásamt hv. þm. A.-Sk. leyft mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá: Í trausti þess, að ríkisstjórnin annist um, að frv. til laga um girðingar til varnar gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og heimild til samþykkta um fjárskipti verði lagt fyrir sýslunefndir landsins til umsagnar, áður en fullnaðarályktun yrði um það gerð, en málið hins vegar svo mikilvægt og snertir svo mjög sjálfsforræði og hagsmuni héraðanna, að eigi þykir rétt að ráða því til lykta á þessu þingi, að fornspurðum þessum aðilum, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Vænti ég, að hv. d. fallist á þessa afgreiðslu frv.