14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins bæta fáum orðum við ræðu hv. þm. Mýr. út af hinni rökst. dagskrá. Það kom fram í ræðu hv. flm. hennar, að hún byggðist m. a. á því, að enginn skaði væri skeður, þótt málið drægist um eitt ár, þar sem engar girðingaframkvæmdir mundu verða á þessu ári. Ég vil því upplýsa, að fyrirhugað er að koma a. m. k. 4 girðingum upp á þessu ári, og er þegar búið að panta efni til þeirra. Það hefur mæðiveikin gert í samráði við hæstv. landbúnaðarráðh.

Þessar girðingar eru:

1. Girðing í Þingeyjarsýslu í sambandi við hina nýju fjárpest, sem þar geisar.

2. Lenging á girðingu meðfram Þjórsá, sem er talin mjög nauðsynleg. Hefur Guðmundur Árnason í Múla, sem er Rangæingur, form. mæðiveikin., lagt mikla áherzlu á, að þeirri girðingu verði komið sem fyrst upp, og sömuleiðis hefur Guðjón Jónsson í Ási, eftirlitsmaður girðinganna þar, sem sæti á á búnaðarþingi, lagt á það ríka áherzlu. Girðingin við Hvítá og Jökulfallið, sem nauðsynlegt er að setja til þess að hindra það, að garnaveikin, sem er mjög útbreidd í Hreppum, nái að komast um Biskupstungur, Laugardal og Grímsnes.

Allar þessar girðingar eru bráðnauðsynlegar, og til þess að unnt sé að koma þeim upp í sumar, var nauðsynlegt að panta efni til þeirra í tæka tíð. (HelgJ: En það er ókomið?). Það er nú mjög langt síðan gaddavírinn var pantaður, og ég veit ekki betur en búið sé að gera ráðstafanir til þess að senda skip norður á Strandir eftir stauraefni.

Við verðum að gera okkur ljóst, að það er aðeins tvennt til í þessu máli. Annaðhvort er að gera allt, sem unnt er, til þess að hamla gegn útbreiðslu veikinnar, eða leggja nú árar í bát, en þá vita þeir, sem hingað til hafa sloppið við þennan vágest, á hverju þeir eiga von.