14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Gísli Sveinsson:

Það er vitað, að á undanförnum þingum hefur verið mjög erfitt að eiga orðastað við þá menn, sem svo eru inni í þessum málum, að þeirra dómi, að þeir vilja ekki einu sinni taka ýmis atriði þeirra til athugunar. Það hefur ekki verið ágreiningur um það, að eitthvað bæri að gera til varnar gegn þessum fjárpestum, enda geta fulltrúar mæðiveikihéraðanna ekki kvartað undan því, að ekki hafi verið gert það, sem unnt hefur verið þeim til stuðnings, en um hitt eru ekki allir sammála, að enn beri að halda áfram á þeim breiða vegi að reyna alltaf eitthvað nýtt, án þess að athugað sé til hlítar, að hvaða notum þær ráðstafanir komi. Og reynslan af girðingunum, sem kostað hafa milljónir króna, er nokkuð vafasöm. — Mér kom því mjög á óvart, að hv. þm. Borgf. skuli furða sig á því, þótt einhverjir þm. vilji nú nema staðar og stinga við fæti, þegar enn er nýtt frv. á ferðinni, sem hefur stórfelldan kostnað í för með sér. En svo er að sjá, sem ekki þurfi nema örfáa menn úr mæðiveikihérðunum til þess að berja það í gegn, sem þeir álíta nauðsynlegt í hvert skipti. Hér hefur komið fram nýr aðili í þessum málum, búnaðarþingið, en ég viðurkenni ekki, að það sé neinn hæstiréttur né standi ofar Alþ., og úr því Alþ. situr nú, þá tel ég, að hv. Alþ. og mæðiveikin, hefðu átt að hafa forgöngu um málið, en ekki búnaðarþing, og það skiptir engu, þótt fulltrúar úr héruðunum mæti þar. Þetta veit hv. þm. Borgf. líka ofur vel. Og við, sem sæti eigum á Alþ., viljum gjarnan hafa málfrelsi um þessi efni, án þess að eiga á hættu að fá ávítur fyrir. — Þegar nú á með þessu frv. að leggja nýjar stórfelldar kvaðir á sýslufélögin, þá er ekki nema eðlilegt, þótt fulltrúar héraðanna óski eftir því, að það mál sé athugað betur og að héruðin sjálf fái tækifæri til þess að fjalla um slíkt mál, því að það virðist ógerlegt, að Alþ. leggi nýjar og nýjar kvaðir á héruðin, án þess að þau fái nokkuð um það að segja. — Ég mótmæli þessum aðferðum, og það virðist heldur engin hætta á ferðum hvað framkvæmdir snertir, þótt málið sé athugað. Hv. þm. Borgf. upplýsti, að harðstjórnin í þessum málum væri svo mikil, að búið væri að panta efni í þessar girðingar fyrir löngu, enda þótt málið hafi aðeins nýlega verið lagt fyrir hv. Alþ. — Hvers vegna ætti ekki að koma á algerðu einræði og leyfa fulltrúum mæðiveikihéraðanna að ganga í ríkissjóðinn og sýslusjóðina óhindrað og ausa fé út eftir eigin geðþótta? — Ég leyfi mér að efast um, að hæstv. forsrh. hafi gefið samþykki sitt til þess að leggja í kostnað við efniskaup til girðinganna án þess að Alþ. væri búið að samþ. þær, en ef þetta er satt, er slík aðferð stórum vítaverð, og væri því meiri ástæða til þess fyrir hv. þm. að átta sig á því strax, hve langt slíkt. á að ganga, og leyfa héruðunum einnig að fá málið til athugunar. Það er margt í þessu frv., sem þarfnast athugunar, t. d. það, sem ég hef bent á, hvort héruðin treystust að mæta þessum aukna kostnaði, og enn fremur er girðinga- setning á ýmsum stöðum vafasöm. Fleira þyrfti að athuga, en ég mun ekki ræða það nánar nú, og vænti ég þess, að hv. þm. fallist á þessa till. okkar.