10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

140. mál, bankavaxtabréf

Bernharð Stefánsson:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið, það sem það náði, og vitanlega er það ekki hans sök, að það náði heldur stutt. Ef það er rétt, sem mér finnst staðfest með ræðu hans, að þetta sé í lausu lofti, þýðir það, að ummælin í 23. gr. um opinbert skráð gengi eru vægast sagt hálfgerður hortittur. Ég bið hæstv. forseta að athuga, að ég gaf ekkert beint tilefni til, að farið yrði að tala hér um allt annað mál en fyrir liggur. Ef það hefði átt við, mundi ég hafa svarað ræðu hv. 1. þm. Reykv. allýtarlega, en þar sem ekki er rétt að hefja umr. um mál, sem ekki er á dagskrá, þó það sé þessu skylt, verð ég að láta fá orð nægja.

Hv. 1. þm. Reykv. færði gild rök fyrir því, að það sé algerlega óhætt fyrir Landsbankann að setja upp kaupþing, en þó sé ákaflega hættulegt að setja lög um, að ríkið komi upp slíkri stofnun og gefa bönkunum völd um stjórn kaupþingsins. Fjárhagsleg hætta væri þetta vitanlega engin fyrir landið, því að ekki var ætlazt til, að kaupþingið keypti sjálft nokkurt bréf, heldur að það yrðu aðeins fundir, þar sem menn gætu mætzt og verzlað sín á milli. Það er til lítils sóma, að mínu áliti, fyrir hlutaðeigendur, að þjóðbanki landsins skuli hafa látið frá sér fara annað eins plagg og það, sem hv. 1. þm. Reykv. flaggar með í nál. sínu um frv. til 1. um kaupþing í Reykjavík.