12.06.1941
Neðri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

140. mál, bankavaxtabréf

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru örfá orð viðvíkjandi till. fjhn., vegna þess að ég tel óeðlilegt, að slíkt ákvæði verði sett inn í frv. þetta. Þetta hefur verið hér til umræðu áður, og hafa verið færð nokkur rök fyrir þessari till. En út af því vil ég benda á, að vextir hafa lækkað allmjög af innstæðum í bönkum. Þeir, sem eiga að ráðstafa fé ómyndugra, geta eins og sakir standa ekki varið því betur en til kaupa á vel tryggðum verðbréfum, eins og t. d. veðdeildarbréfum, sem nú munu að vísu seljast lítið eitt yfir nafnverði. Ef þessi till. yrði samþ., yrðu þeir annaðhvort að leggja féð á sparisjóðsreikning eða þá að kaupa uppsprengd fasteignaveðbréf.

Bankarnir greiða nú 3% vexti af takmarkaðri upphæð, en 1% af afganginum. Af veðdeildarbréfum eru 5% vextir auk þess sem þau eru einhver hin bezt tryggðu verðbréf, sem völ er á, því fyrir þeim stendur ríkisábyrgð. Ég tel því óþarfa fyrir Alþingi að fara að hafa þannig vit fyrir forráðamönnum ómyndugra, hvaða bréf þeir, kaupi eða við hvaða verði. Þeir verða að meta það sjálfir á hverjum tíma. Það er því engin ástæða til þess fyrir Alþingi að leggja stein í götu manna um kaup á veðdeildarbréfum. Ég sé ekki betur en Alþingi yrði þá sjálft að taka að sér öll forráð ómyndugra og alla ábyrgð á fjárreiðum þeirra, ef ekki má treysta hinum sömu embættismönnum til þess starfa, sem jafnan áður hafa haft hann með höndum. Ef hins vegar verður nokkur lækkun síðar, þá verða eigendur bréfanna í versta tilfelli að bíða þangað til þau verða dregin út.

Ég endurtek það, að ég sé enga ástæðu til að leggja sérstakar hömlur á það, að menn megi kaupa veðdeildarbréf, því það gæti hæglega orðið til þess, að menn færu að kaupa alls konar miður tryggð skuldabréf, því forráðamönnum ómyndugra er hvergi bannað að kaupa t. d. 2. veðréttar bréf, og fyrir þeim er engin ríkisábyrgð.