08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

70. mál, Háskóli Íslands

Pálmi Hannesson:

Þetta mál hefur verið rætt allmikið í menntmn. og varð samkomulag um að n. bæri frv. fram, en nm. hefðu óbundnar hendur um einstök atriði.

Ég skal gera þá grein fyrir minni afstöðu strax, að ég tel mig ekki bundinn við ákv. 1. gr. og mun gera brtt. við hana.

Fyrir mér er kjarni málsins sá, viðvíkjandi viðskiptaháskólanum, að ef hann verður lagður undir háskólann, þá verði hann eins konar hjáleiga frá lagadeild. Og ég vil benda á það í því sambandi, að rektor getur þess, að hann hafi hugsað sér að fá þessa deild opnaða í sambandi við lokun læknadeildar. Það á að nota þetta sem eins konar ventil til þess að létta þrýstinginn á læknadeildinni. Þarna finnst mér ekki hugsað út frá skólans sjónarmiði eða þeirra manna, sem í honum eru. Og mig uggir, að þegar viðskiptaháskólinn yrði kominn sem eins konar útkjálki frá lagadeild, þá yrði vegur hans ekkert meiri en hann nú er og miklu minni en hann gæti orðið; ef hann væri sérstök stofnun.

Um viðskiptafræðina er það annars að segja, að það er óvíða, sem hún er hluti af háskólanámi. Hitt er miklu tíðara, að hún er látin frjáls, einmitt í því skyni að koma í veg fyrir, að hún verði of akademisk. Hins vegar er þessi skóli hugsaður með það fyrir augum frá öndverðu, að þeir, sem útskrifast frá honum, verði færir til að takast á hendur viðskipti af þjóðarinnar hálfu í öðrum löndum. En til þess þarf ekki háskólamenntun, heldur þann undirbúning, sem væri sniðinn með hliðsjón af tilganginum.

Að síðustu vil ég svo benda á, að við hv. 2. þm. Árn. höfum borið fram till. til þál. í Sþ. um að taka til endurskoðunar skólamálin í heild og ekki sízt skólakerfið og afstöðu skólanna hvers til annars. Eins og það mál horfir, þykir mér ekki ólíklegt, að sú till. verði samþ. Mér er kunnugt um, að hæstv. forsrh. er henni fylgjandi. Heyrir þá það beint undir þá n., sem ætlazt er til, að skipuð verði samkv. till. okkar, að gera till, um hvernig þessi skóli, eins og aðrir, skuli hníga inn í skólakerfi landsins. Ég vildi vekja athygli á þessu og vænti, að menn geti fallizt á slíka afgreiðslu málsins. En eins og ég gat um, mun ég bera fram brtt. við 1. gr. frv.