09.06.1941
Sameinað þing: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög

Pálmi Hannesson:

Ég hafði beðið hæstv. forseta að taka ekki fjárl. til atkvgr. á þessum tíma, vegna þess að ég var bundinn við embættisstörf. Mér þótti leitt að geta ekki verið við þessa atkvgr., og þætti mér gott að vita, hvaða nauður hafði rekið hæstv. forseta til þess að afgr. málið á þessum tíma.

Ég er 1. flm.brtt. á þskj. 622,VI, og er hún viðkomandi skógrækt, og var hún tekin til atkvgr. og henni lokið rétt áður en ég kom inn í þingsalinn.

Eins og ég gat um við hæstv. forseta í dag, þegar ég bað um, að fjárl. yrðu ekki tekin til afgreiðslu í dag, taldi ég það mjög miklu máli skipta, að ég gæti verið við þessa atkvgr. Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, hvers vegna hafi ekki fengizt sá frestur, sem ég bað um.