25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

70. mál, Háskóli Íslands

Gísli Sveinsson:

Ég bjóst ekki við, að hæstv. forseti tæki í þann streng í þessu máli, sem hann hefur nú gert. Allir eru sammála um, að málið megi ganga til 3. umr., og þar geta brtt. komið til atkvæða. í annan stað er jafnauðvelt að koma að málskrafi við 3. umr. og við 2. umr. Ég vænti einnig, að spurningar hv. 7. landsk. séu ekki það mergjaðar, að þær geti ekki eins komið fram við 3. umr. málsins. Þessi hv. þm. og hæstv. forsrh., sem hafa gert sér það að reglu að mæta ekki, þegar málið hefur verið til umræðu, gætu líka ef til vill áttað sig á því utan þings. — Það má líka, sem kunnugt er, oft spyrja svo, að ekki sé unnt að svara. Það er einnig hrein tilviljun, að málið er ekki komið veg allrar veraldar, nú þegar hv. þm. rankar við sér og finnur, að hann þarf endilega að spyrja þann ráðherrann, sem ekki er viðstaddur.

Ég sé nú, að hæstv. forsrh. er kominn, og getur hann þá væntanlega tekið málið að sér. Ég bíð þar til einmæli þeirra hæstv. forseta og hæstv. forsrh. er lokið. — Það er ekki seinna vænna fyrir hæstv. ráðh., því það hefur verið upp á hann hermt, að hann sé málinu fylgjandi. Og nú gefst hv. sessunaut mínum tækifæri á að koma fram með sínar viturlegu spurningar og hæstv. ráðh. að svara þeim á elleftu stundu.