26.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

70. mál, Háskóli Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Mér virðist ræða mín hafi verið nokkuð misskilin. Ég sagði aðeins, að ef viðskiptaháskólinn verður óbreyttur eins og hann er nú, þá verði vitanlega hægt að gefa út reglugerð um, hvaða menntun, stúdentsmenntun eða aðra menntun, þurfi að hafa til að komast í viðskiptaháskólann, en ef frv. verður samþ. óbreytt, þá munu ekki aðrir en stúdentar komast þar inn. Þessu þyrfti að breyta með því að setja í 2. gr. frv. ákvæði um, að einnig þeir, sem ekki væru stúdentar frá menntaskólanum í Reykjavík eða á Akureyri, fengju inntöku með því að taka sérstakt próf. Og um það væri svo sett reglugerð, hvaða prófraunir þeir þyrftu að leysa af hendi, óbundið við 6 ára nám. Það var þetta, sem ég tók fram áðan, og það er einmitt það sama, sem hv. 7. landsk. er að mæla fyrir hér í þessari hv. d. Það, sem virðist vaka fyrir honum, er það, að menn frá einhverjum sérstökum skólum, t. d. verzlunarskólanum, fái rétt til þess að ganga inn í þessa deild háskólans, ef þetta frv. yrði að lögum. Ég álít, að þessi breyt., sem ég hef tvívegis orðað, sé eðlileg, og sé ég ekki ástæðu til að orða hana í þriðja sinn.

Eins og ég tók fram áðan, er þetta frv. lagt fram eins og það var sent frá háskólanum, og samkvæmt loforði sendi ríkisstj. frv. eins og það kom frá háskólanum til menntmn. Ríkisstj. vildi ekki gera neina breyt. á því, vegna þess að það var ekki flutt sem stjfrv. Með því að gera breyt. á því gerði hún það að sínu frv. Hins vegar er það auðvelt fyrir hvern einstakan þm. að bera fram breyt., og ég er sannfærður um það, að hv. 7. landsk. yrði engin skotaskuld úr því að orða þá breyt., sem gera þarf, til þess að sá tilgangur náist, sem hann er að mæla fyrir. Það er á valdi hvers þm. að gera slíkt, og lítið verk að inna það af hendi. Ég fyrir mitt leyti get sagt nú þegar, eins og líka kom fram í fyrri ræðu minni um þetta mál, að ég er honum algerlega samþykkur um það atriði, að gera ætti þessa breyt. á frv., að það eigi ekki að binda það við stúdenta, það eigi að hafa sérstakt próf, þar sem þær prófraunir væru ákveðnar, sem leysa þyrfti af hendi til þess að komast inn í þessa deild háskólans, ef frv. yrði samþykkt.