25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

70. mál, Háskóli Íslands

Bergur Jónsson:

Mér skildist á hv. 1. þm. Skagf., að hann teldi ræðu mína vera áreitni í garð menntmn. Ég get ekki ráðið við það, hversu viðkvæm menntmn. kann að vera fyrir orðum mínum nú. En hv. þm. sagði, að þetta væri ekki nýtt, því að ég hefði gert það áður. Ég mótmæli því, að ég hafi ráðizt á hv. menntmn. hér á hæstv. Alþ. Hitt játa ég, að í sambandi við mál, sem ég var flm. að og n., sem ég starfaði í, allshn., hér á þingi, þá rengdi ég yfirlýsingar hv. 1. þm. Skagf., sem sennilega hefur þá átt sæti í menntmn. líka, um það, að ákveðinn lagabálkur mundi sýna sig mjög fljótlega, en það var endurskoðun á fuglafriðunarl., sem um var að ræða. Ég man ekki eftir að hafa áreitt menntmn. nokkuð, nema ef það væri skilið svo af hv. þm., að þessi áreitni mín, sem hv. þm. kallar svo, hafi verið til menntmn. En þessi spádómur minn hefur reynzt réttur, því að það hefur ekki bólað á þeim lagabálki um fuglafriðun, sem hv. 1. þm. Skagf. hneykslaðist svo mjög á, að ég skyldi rengja, að kæmi þá og þegar.